Lífið

„Það verður engin kyngeta nema með að borða skyr“

Hallgerður Kolbrún E. Jónsdóttir skrifar
Guðni Ágústsson, fyrrverandi ráðherra, segir Selfoss loks orðinn miðdepil Íslands á nýjan leik.
Guðni Ágústsson, fyrrverandi ráðherra, segir Selfoss loks orðinn miðdepil Íslands á nýjan leik. Stöð 2

Mikið var um að vera í nýja miðbænum á Selfossi í dag en þar var fyrsta skyrsafn landsins opnað síðdegis. Guðni Ágústsson, fyrrverandi ráðherra, segir að Selfoss sé orðinn miðdepill Íslands á nýjan leik. 

„Þetta er nú eiginlega meiri sýning en safn. Þetta er upplifunarsýning um sögu skyrsins, sem reynir á öll skilningarvitin, og er virkilega skemmtileg og vel heppnuð. Saga skyrsins er merkilegri en flestir gera sér grein fyrir,“ sagði Elísabet Ósk Guðlaugsdóttir, umsjónarmaður Skyrlands, í kvöldfréttum Stöðvar 2.

Guðni Ágústsson, fyrrverandi landbúnaðarráðherra og mjólkureftirlitsmaður hjá Mjólkurbúi Flóamanna, segir sýninguna marka stóran dag á Selfossi. 

Elísabet Ósk segir sögu skyrsins meira spennandi en marga gruni.Stöð 2

„Þetta er glæsilegur dagur, Skyrland! Selfoss er kominn í miðdepil Íslands á nýjan leik. Fyrir níutíu árum afrekuðu menn það að byggja hér Mjólkurbúið sem var móðir Selfoss. Kaupfélagið var faðir þess og Ölfusárbrúin naflastrengurinn. Þannig að þetta er stór dagur, hér er fullur bær af fólki alla daga og allir að flytja hingað,“ sagði Guðni. 

Hann er sjálfur að flytja í miðbæ Selfoss á næstu dögum til að njóta lífsins og fjörsins sem þar ríkir. Sjálfur segist hann uppalinn á skyri, sem hafi gefið honum afl.

„Ég hef alltaf borðað skyr. Við erum aldir upp bræðurnir á graðhestaskyri, sem kom á brúsum í botninum, gult og kraftmikið og gaf okkur afl.“

Einhverjir skyrunnendur vilja meina að skyrið veiti fólki kyngetu sem Guðni tekur undir. 

„Það verður engin kyngeta nema með að drekka mjólk, borða skyr, nota smjör og borða ost. Þá vaxa beinin og maðurinn verður til. Kýrin er móðir mannsins að þessu leyti,“ sagði Guðni.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×