Menning

Vínar­borg byrjar á On­lyFans

Árni Sæberg skrifar
Notendur OnlyFans eru um 130 milljónir.
Notendur OnlyFans eru um 130 milljónir. Jakub Porzycki/Nur Photo via Getty Images

Ferðamálastofa Vínarborgar í Austurríki hefur opnað OnlyFans-aðgang í þeim tilgangi að birta listaverk sem talin eru of kynferðisleg fyrir aðra samfélagsmiðla.

Aðgangurinn var stofnaður í kjölfar þess að Albertinasafninu í Vín var úthýst af samfélagsmiðlinum TikTok fyrir að birta listaverk japanska ljósmyndarans Nobuyoshi Araki í júní síðastliðnum. Ástæðan var að sú að á verkunum mátti sjá kvenmannsbrjóst.

Ferðamálastofa Vínar er með stofnun OnlyFansaðgangs að deila á aukna ritskoðun á samfélagsmiðlum. Til að mynda úrskurðaði Instagram árið 2019 að málverk eftir Peter Paul Reubens bryti í bága við skilmála miðilsins. Skilmálarnir leggja blátt bann við nekt af nokkru tagi, jafnvel þó um sé að ræða myndlist.

Þá fjarlægði Facebook mynd breska náttúrusögusafnsins af Venus frá Willendorf árið 2018 á þeim grundvelli að hún væri of klámfengin. Venus frá Willendorf er 25 þúsund ára gömul stytta.

Venus frá Willendorf var ekki talin viðeigandi á Facebook.Getty Images

Fyrstu áskrifendur fá safnakort

Ferðamálastofan stofnaði OnlyFans-aðganginn ekki einungis til að storka samfélagsmiðlarisunum heldur er hann einnig liður í því að auka flæði ferðamanna til Vínar eftir heimsfaraldur Covid-19.

Þannig munu þeir sem skrá sig fyrst á aðganginn fá annaðhvort safnakort í Vín eða staka aðgangsmiða á söfn í borginni til að geta séð listaverkin í raunheimum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×