Tónlist

Margrét gerir upp æskuna á nýrri plötu Vök: „Villta vestrið í þessu tilviki er Akranes“

Sylvía Rut Sigfúsdóttir skrifar
Nýja platan frá VÖK er uppgjör Margrétar við æskuárin.
Nýja platan frá VÖK er uppgjör Margrétar við æskuárin. Dóra Dúna

Hljómsveitin Vök hefur látið til sín taka í útgáfumálum á þessu ári og sendir nú frá sér EP plötuna, Feeding on a Tragedy. Nýjasta lagið heitir Running Wild.

„Þetta lag er svona smásaga úr villta vestrinu. Villta vestrið í þessu tilviki er Akranes,“ segir Margrét Rán sem fæddist og ólst þar upp. Platan er hennar uppgjör við æskuárin. 

„Á uppvaxtaráranum mínum á Skaganum fannst mér ég aldrei passa inn. Ég þjáðist af innilokunarkennd og þráði að komast í burtu. Á endanum ákvað ég að elta draumana mína og fór. Þessi flóttatilfinning kraumar undir í textanum og er um leið hvatning til allra um að láta drauma sína rætast. Hamingjan er þess virði að hlaupa á eftir henni.”

Hjómsveitin Vök hefur löngu getið sér gott orð fyrir draumkenndan og lagskiptan hljóðheim þar sem electro og indie poppi er blandað saman.

„Tónlistarlega þá sóttumst við eftir því að gera eitthvað allt öðruvísi en áður. Við blönduðum saman hip hop takti með grámyglulegum gítar, smá kántrí og rafmagnssynta. Þetta var mótsagnakennd tilraun á sínum tíma en hún passar vel við textann og við erum ofboðslega ánægð með útkomuna.”

Auk, Running Wild þá má finna lögin No Coffee at the Funeral, Skin og Lost in the Weekend sem hafa öll hafa fengið mikla útvarpsspilun. 

Hljóðblöndun lagsins Running Wild var í höndum David Wrench sem hefur meðal annars unnið með tónlistarfólki á borð við Jungle, David Byrne, Caribou og The XX.

Þríeykið sem myndar Vök eru Margrét Rán söngkona og hljómborð, Einar Stef gítar- og bassaleikari og Bergur Dagbjartsson trommuleikari. Þau hafa unnið að plötugerðinni í hljóðverum sínum í Hafnarfirði og Reykjavík. Vök er að mála hjá alþjóðlega fyrirtækinu Nettwerk en gefa út undir eigin merkjum á Íslandi.

Platan Feeding on a Tragedy er komin út á Spotify.

Til gamans má geta að Bobby Breiðholt gerði grafík fyrir plötuumslagið ásamt tveimur öðrum á plötum sem komu út í dag, Mold með Emmsjé Gauta og Helga Sæmundi og Víðihlíð með Snorra Helgasyni.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×