Innlent

Gæslan bjargar fjórum skipverjum eftir strand við Æðey

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Þrír Englendingar og einn Íslendingur voru um borð. Myndin var tekin í morgun.
Þrír Englendingar og einn Íslendingur voru um borð. Myndin var tekin í morgun. Landhelgisgæslan

Landhelgisgæslan kom fjórum skipverjum til bjargar í nótt eftir að skúta þeirra strandaði við Æðey í Ísafjarðardjúpi. Fjórmenningarnir voru hífðir um borð í þyrlu Gæslunnar um klukkan tvö í nótt og flogið með þá til Ísafjarðar til aðhlynningar.

Stjórnstöð Landhelgisgæslunnar barst tilkynning um strandið laust eftir miðnætti, að því er fram kemur í tilkynningu. Áhöfnin á TF-GRO var kölluð út og sjóbjörgunarsveitir Landsbjargar á Vestfjörðum.

Þá óskaði stjórnstöð Gæslunnar eftir því að áhöfn rannsóknarskipsins Bjarna Sæmundssonar héldi á svæðið en skipið var statt í Ísafjarðardjúpi. 

Klippa: Fjórir skipverjar hífðir um borð í þyrlu gæslunnar í Ísafjarðardjúpi

Bjarni Sæmundsson og björgunarskipið Kobbi Láka voru fyrst á vettvang. Enginn leki kom að skútunni við strandið en veður var ekki gott. Þó fór ágætlega um skipverjana á meðan þeir biðu, að því er fram kemur í tilkynningunni.

Um kl. 2.15 voru þeir allir komnir um borð í þyrluna og gengu hífingar vel en voru krefjandi vegna masturs skútunnar. Aðstæður á vettvangi verða kannaðar við birtingu og flóð nú í morgunsárið.

Uppfært 10:25: Í tilkynningu frá Landhelgisgæslunni segir að þegar komið hafi verið að skútunni í morgun hafi hún verið komin aftur á flot. Hún gangi nú fyrir eigin vélarafli og sigli til Ísafjarðar í fylgd sjómælingaskipsins Baldurs og björgunarskipsins Kobba Láka.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×