Lífið

Oddvitaáskorunin: Eina fríið var fimm daga hestaferð

Samúel Karl Ólason skrifar
IMG-6054

Vísir stendur fyrir Oddvitaáskoruninni 2021 þar sem skorað er á oddvita allra flokka í kjördæmum um land allt að taka þátt. Áskorunin felur í sér stutta kynningu og að svara nokkrum léttum spurningum.

Sigurður Ingi Jóhannsson leiðir lista Framsóknarflokksins í Suðurkjördæmi í kosningunum.

Sigurður Ingi er menntaður dýralæknir og hefur verið í stjórnmálum í mörg ár. Fyrst sem sveitarstjórnarmaður og oddviti í Hrunamannahrepp en frá árinu 2009 á Alþingi fyrir Framsókn. Sigurður Ingi býr í Syðra-Langholti í Hrunamannahreppi ásamt Elsu Ingjaldsdóttur, eiginkonu sinni.

Hver er fallegasti staðurinn á Íslandi?

Kerlingafjöll.

Hvað færðu þér í bragðaref?

Nóa-Kropp, súkkulaðisósa og jarðarberjasósa.

Uppáhalds bók?

Njála.

Uppáhalds „guilty pleasure“ lag? (skammast þín smá fyrir að hafa gaman af því – sakbitin sæla)

Dancing queen meða ABBA.

Hvar á Íslandi myndir þú helst vilja búa? (Ekki í þínu kjördæmi)

Hallormsstað.

Dundaðir þú þér við eitthvað á tímum Covid og samkomutakmarkana? Hámhorf eða nýtt áhugamál, sem dæmi.

Hjólaði um sveitina.

Hvað tekur þú í bekk?

Það er langt síðan það hefur reynt á það.

Burstar þú tennurnar fyrir eða eftir morgunmat?

Fyrir morgunmat.

Draumastarfið? (Fyrir utan þingsetu)

Dýralækningar.

Hvað myndir þú segja við Kim Jong Un, einræðisherra Norður-Kóreu, ef þú myndir hitta hann í einrúmi?

Hugsaðu um þjóðina þína en ekki bara um sjálfan þig.

Uppáhalds tónlistarmaður?

David Bowie.

Besti fimmaurabrandarinn?

Ég man í tóba, ég sat á bar og bað um minni sóda. Ég hugsaði mér mér: ég vona að Jóna vinni peg. En hún vann kúver.

Ein sterkasta minningin úr æsku?

Kistulagning afa míns þegar ég var fjögurra ára.

Hver er fyrirmynd þín í pólitík?

Afi minn, Sigurður Ingi Sigurðsson.

Besta íslenska Eurovision-lagið?

Is it true? með Jóhönnu Guðrúnu.

Besta frí sem þú hefur farið í?

Sumarið sem ég var forsætisráðherra fór í fimm daga hestaferð um afrétti Skaftárhrepps og niður í Fljótshlíð. Það voru einu fimm dagarnir sem ég tók í frí það sumarið.

Uppáhalds þynnkumatur?

Tvöfaldur borgari með frönskum og miklu af kokteilsósu.

Hve oft hefur þú farið að sjá eldgosið?

Aldrei.

Uppáhalds Fóstbræðraatriði?

Indriði er mitt uppáhald.

Uppáhalds uppátækið frá framhaldsskólaárunum?

Það verður ekki rifjað upp hér.

Rómantískasta uppátækið?

Ég held að það verði að teljast þegar ég í brúðkaupi okkar Elsu söng einsöng til hennar.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×