Lífið

Andhetjan úr „The Wire“ látin

Kjartan Kjartansson skrifar
Michael Kenneth Williams við frumsýningu í Los Angeles í ágúst.
Michael Kenneth Williams við frumsýningu í Los Angeles í ágúst. Vísir/Getty

Michael K. Williams, bandaríski leikarinn hvers stjarna reis hæst í þáttunum „The Wire“, fannst látinn í íbúð sinni í New York í dag. Hann var 54 ára gamall.

Fulltrúi Williams staðfesti andlát hans við Hollywood Reporter. Áður höfðu slúðurmiðlarnir New York Post og TMZ haldið því fram að grunur léki á að Williams hefði látist af of stórum skammti af vímuefni.

Williams skaust upp á stjörnuhimininn með túlkun sinni á persónu Omar Little í þáttunum „The Wire“. Persónan var nokkurs konar Hrói höttur síns tíma í Baltimore á fyrsta áratug þessarar aldar, afbrotamaður sem hafði lífsviðurværi sitt af því ræna fíkniefnasala. Barack Obama, fyrrverandi Bandaríkjaforseti, lýsti Omar meðal annars sem uppáhaldspersónu sinni í þáttunum.

Eftir athyglina sem Williams hlaut í þáttunum fékk hann hlutverk Albert „Chalky“ White í „Boardwalk Empire“. Undir það síðasta lék hann í hryllingsþáttunum „Lovecraft Country“.

TMZ segir að Williams láti eftir sig einn son.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.