Innlent

Þrí­hrygg­brotinn eftir að hafa reynt Sveppa­dýfuna

Hallgerður Kolbrún E. Jónsdóttir skrifar
Adam Geir brotnaði á þremur hryggjarliðum eftir að hann reyndi að leika Sveppadýfuna eftir.
Adam Geir brotnaði á þremur hryggjarliðum eftir að hann reyndi að leika Sveppadýfuna eftir. Vísir

Karlmaður um þrítugt stórslasaðist á hrygg þegar hann tók hina svokölluðu Sveppadýfu í sundlauginni á Patreksfirði fyrir tveimur vikum. Hann varar fólk við því að apa svona eftir og vonar að tískubylgjuna lægi.

Sveppadýfan svokallaða hefur farið eins og eldur í sinu um netmiðla undanfarið eftir að fjölmiðlamaðurinn Egill Einarsson, birti myndband af Sverri Þór Sverrissyni, sem er betur þekktur sem Sveppi, kasta sér út í sjó með höfuðið fyrst. 

Fjöldi fólks hefur leikið dýfuna eftir en farið misvel.

Adam Geir Gústafsson var staddur í sundlauginni á Patreksfirði 17. ágúst þar sem hann endurtók leik Sveppa en áttaði sig ekki á því hve grunn laugin er.

„Ég fer með hausinn í botninn og heyri í hryggnum og hálsinum, brakið og allt saman í vatninu, af því að maður heyrir hljóð öðru vísi í vatni. Ég stend upp og þá segir skipstjórinn að ég sé allur úti í blóði,“ segir Adam í samtali við fréttastofu.

Adam þakkar fyrir að læknirinn á Patreksfirði hafi verið á staðnum og að þyrla Landhelgisgæslunnar hafi verið skammt undan sem flutti hann á Landspítalann.

„Ég fékk kraga strax, læknirinn var mjög seigur þar, ég er mjög ánægður með hann. Hann áttaði sig fljótt á þessu af því að verkurinn var svo mikill í hálsinum.“

Í ljós kom að þrír hryggjarliðir voru brotnir hjá Adam. Hann er nú rúmliggjandi, má sig hvergi hreyfa, og verður það næstu fjórar vikur í það minnsta.

„Af því að þetta er svo nálægt taugunum og öllu saman þá getur maður ef maður gerir of mikið þá er alltaf hætta á því að lamast,“ segir Adam.

Hann hvetur fólk til að reyna ekki á Sveppadýfuna.

„Krakkar og fólk, endilega passið ykkur á þessu sveppadýfudóti og ég mæli ekki með þessu. Innilega ekki.“



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×