Innlent

Á­rétta aug­lýsinga­skyldu eftir að 23 voru ráðnir án aug­lýsingar

Eiður Þór Árnason skrifar
Dómsmálaráðherra sækir Hæstarétt heim. 
Dómsmálaráðherra sækir Hæstarétt heim.  Hæstiréttur

Alls hafa 23 verið ráðnir í störf aðstoðarmanna dómara í Hæstarétti án auglýsingar frá árinu 2006. Allir aðstoðarmennirnir luku lagaprófi frá lagadeild Háskóla Íslands.

Dómsmálaráðuneytið hefur beðið dómarasýsluna um að árétta auglýsingaskyldu starfanna við forstöðumenn dómstóla. Þetta kemur fram í svari Áslaugar Örnu Sigurbjörnsdóttur dómsmálaráðherra við fyrirspurn Andrésar Inga Jónssonar, þingmanns Pírata.

Samkvæmt lögum og reglum fjármála- og efnahagsráðherra ber að auglýsa störf við Hæstarétt laus til umsóknar en tilteknar undanþágur eru veittar frá því, svo sem ef störf eru tímabundin vegna sérstakra ástæðna.

Í svari dómsmálaráðherra segir að það beri að auglýsa stöður aðstoðarmanna dómara nema undanþágur eigi við. Dómsmálaráðuneytið hefur ritað dómarasýslunni erindi og farið þess á leit að stofnunin árétti auglýsingaskylduna.

Andrés Ingi vakti nýverið máls á því að Hæstiréttur hafi auglýst starf aðstoðarmanns dómara laust til umsóknar eftir að hann spurðist fyrir um málið. 

Margir dómarar starfað samhliða við lagadeildir

Andrés Ingi óskaði einnig eftir upplýsingum um hversu margir hæstaréttardómarar væru starfsmenn lagadeilda. Hafa þeir verið allavega fjórir frá árinu 2006.

Benedikt Bogason, forseti Hæstaréttar, hefur verið í 49% starfshlutfalli við lagadeild Háskóla Íslands frá því að hann var skipaður dómari við réttinn árið 2012.

Karl Axelsson hefur frá skipun árið 2015 verið í 20 eða 25% starfshlutfalli við lagadeild HÍ. Björg Thorarensen hefur sömuleiðis verið í 25% starfshlutfalli við lagadeildina frá því hún var skipuð í nóvember í fyrra en mun láta af því starfi 31. ágúst næstkomandi.

Ása Ólafsdóttir var frá nóvember í fyrra til lok maí á þessu ári í 15% starfshlutfalli við sömu lagadeild, að því er fram kemur í svari ráðherra. Aðrir dómarar hafa ekki verið í föstu starfshlutfalli við lagadeildir en einhverjir þeirra munu hafa tekið að sér tilfallandi stundakennslu við lagadeild Háskólans í Reykjavík.

Fréttin hefur verið uppfærð.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.