Innlent

Aldrei jafn margir stórmeistarar tekið þátt í Reykjavíkurmóti

Heimir Már Pétursson skrifar
Mótið hefst í dag.
Mótið hefst í dag. ReykjavikOpen

Kviku Reykjavíkurskákmótið, Evrópumeistaramót einstaklinga í skák, hefst á Hotel Natura í dag og stendur til 5. september. Tefldar verða 11 umferðir á 11 dögum.

Í tilkynningu frá Skáksambandi Íslands segir að 184 skákmenn frá 36 löndum séu skráðir til leiks, þar af hvorki fleiri né færri en 70 stórmeistarar. 

Aldrei áður hafi svo margir stórmeistarar verið með á Reykjavíkurskákmóti, þar sem nánast allir sterkustu skákmenn landsins taki einnig þátt. 

Minnstu hefði mátt muna að mótinu yrði aflýst vegna kórónuveirufaraldurins en ríflega 25 keppendur hafi verið í sóttkví á keppnishóteli. 

Stigahæsti keppandinn verði enski stórmeistarinn Gawain Jones. Armenski stórmeistarinn Gabriel Sargissian,  þrefaldur ólympíumeistari í skák, væri næst stigahæstur. 

Ríflega 60 íslenskir skákmenn tefli á mótinu, þeirra á meðal sjö stórmeistarar en stigahæstur þeirra væri Hjörvar Steinn Grétarsson. 

Aðrir íslenskir stórmeistarar á mótinu væru Hannes Hlífar Stefánsson, Héðinn Steingrímsson, Jóhann Hjartarson, Guðmundur Kjartansson, Helgi Áss Grétarsson og Bragi Þorfinnsson.

Ef ekki hefði verið fyrir kórónuveirufaraldurinn hefðu sennilega tvöfalt fleiri verið skráðir til leiks á mótinu en þeir 184 sem skráðir væru, segir í tilkynningu Skáksambands Ísland.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×