Sport

Unnu Ólympíugullið í 832 kílómetra fjarlægð frá Tókýó

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Dawid Tomala kemur fyrstur í mark sem líklega síðasti gullverðlaunahafi sögunnar í 50 km göngu á Ólympíuleikum.
Dawid Tomala kemur fyrstur í mark sem líklega síðasti gullverðlaunahafi sögunnar í 50 km göngu á Ólympíuleikum. AP/Eugene Hoshiko

Pólverjinn Dawid Tomala er líklega síðasti gullverðlaunahafi sögunnar í 50 kílómetra göngu á Ólympíuleikum en hann vann hana á leikunum í Tókýó í nótt. Antonella Palmisano frá Ítalíu vann 20 kílómetra göngu kvenna.

Þetta var aðeins önnur 50 kílómetra gangan sem Tomala hefur klárað á ferlinum en hann kom í mark á þremur klukkutímum, 50 mínútum og átta sekúndum. Jonathan Hibbert var 36 sekúndum á eftir og fékk silfur.

Bronsið fór síðan til Kanadamannsins Evan Dunfee. Hann hélt hann hefði unnið bronsið á síðustu leikum en var þá dæmdur úr keppni fyrir að rekast utan í Japanann Hirooki Arai á endasprettinum. Nú kom hann hins vegar í markið og fær bronsið um hálsinn.

Gangan fór þó ekki fram í Tókýó eins og áætlað var. Vegna hitans í borginni var ákveðið að færa hana norður til Sapporo sem er í norður Japan og í 832 kílómetra fjarlægð frá Tókýó. Hitinn var samt um þrjátíu stig en hefði verið miklu meiri í Tókýóborg.

Það er ljóst að 89 ára saga þessarar greinar á Ólympíuleikum er að enda en það hefur verið keppt í henni síðan á Ólympíuleikunum í Los Angeles árið 1932.

Aðeins karlar keppa í 50 kílómetra göngunni og nú er þegar ljóst að það verður ekki keppt í henni á næstu leikum í París árið 2024. Það verður áfram keppt í 20 kílómetra göngu karla og kvenna.

20 kílómetra ganga kvenna fór fram í dag og hana vann Antonella Palmisano frá Ítalíu. Hin kólumbíska Sandra Arenas fékk silfur og Liu Hong frá Kína tók bronsið.  Keppnin fór líka fram á götum Sapporo.

Palmisano hefur verið þriðja bæði á HM og EM en núna náði hún gullinu. Hún kom 25 sekúndum á undan Arenas í markið og er fyrsti Ítalinn til að vinna 20 km göngu kvenna á Ólympíuleikum.

Liu Hong varð Ólympíumeistari á síðustu leikum og tók einnig brons í þessari grein í London 2012. Sú kínverska hefur einnig orðið þrísvar heimsmeistari í greininni.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.