Lífið

Britney Spears vill losna undan valdi föður síns strax

Árni Sæberg skrifar
Britney Spears hefur ekki haft forræði yfir sjálfri sér í þrettán ár.
Britney Spears hefur ekki haft forræði yfir sjálfri sér í þrettán ár. Getty/Axelle

Britney Spears er orðin leið á því að bíða eftir að losna undan valdi föður síns, Jamie Spears. Jamie hefur farið með forræði yfir fjármálum Britney um nokkurn tíma.

Britney Spears hefur höfðað mál til að fá föður sinn sviptan fjárræði yfir sér. Lögmaður hennar, Mathew Rosengart, hefur nú óskað eftir því að málsmeðferð verði flýtt. Þetta segir í frétt TMZ.

Upphaflega stóð til að aðalmeðferð færi fram í lok september en Britney hefur nú farið fram að hún fari fram í þessum mánuði.

Rosengart segir að á hverjum degi sem Jamie fer með fjárræði hennar, sé Britney í uppnámi og tapi svefni.

Jodi Montgomery, sem fer með forræði yfir Britney að fjárræði undanskildu, segir að það að taka fjárræðið af Jamie sé nauðsynlegt geðheilsu Britney.

„Ég hef átt fjölmörg samtöl við læknateymi Britney og við erum öll sammála að það væri hag hennar og geðheilsu best ef faðir hennar væri ekki fjárráðamaður lengur,“ segir Montgomery.

Rosengart segir að auk andlegs álags sé Britney að tapa miklum fjármunum meðan faðir hennar er fjárráðamaður.

Hann segir að lögmenn Jamies Spears hafi þegar farið fram á rúmlega 150 milljónir króna í lögmannskostnað. Þá hefur Jamie farið fram á 67 milljónir króna í „fjölmiðlakostnað“.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×