Sport

Duplantis vann stangarstökkið og er annar Ólympíumeistari Svía á leikunum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Armand Duplantis vann mögulega sitt fyrsta Ólympíugull af mörgum.
Armand Duplantis vann mögulega sitt fyrsta Ólympíugull af mörgum. AP/Matthias Schrader)

Svíinn Armand Duplantis er nýr Ólympíumeistari í stangarstökki karla eftir glæsilegan sigur í úrslitunum á Ólympíuleikunum í Tókýó í dag.

Svíar hafa þar með unnið tvenn gullverðlaun í frjálsíþróttakeppni þessara Ólympíuleika eða jafnmikið og Bandaríkin, Jamaíka, Ítalía og Pólland sem deila öll efsta sætinu yfir flest gull til þessa. Daniel Ståhl vann áður kringlukastið en þar unnu Svíar tvöfalt.

Duplantis fór hæst yfir 6,02 metra og hafði betur í baráttunni við Bandaríkjamanninn Christopher Nilsen sem fór hæst yfir 5,97 metra. Brasilíumaðurinn Thiago Braz fékk bronsið en hann fór yfir 5,87 metra.

Duplantis er aðeins 21 árs gamall og framtíðar risastjarna stangarstökksins. Duplantis hefði getað reynt við Ólympíumetið (6,03 metrar) en ákvað frekar að reyna við heimsmetið sem hann á sjálfur frá því í Glasgow í febrúart 2020.

Hann reyndi við heimsmetið (6,19 metra) eftir að hann hafði tryggt sér gullið og var þá vel yfir slánni í fyrstu tilraun en felldi á niðurleiðinni. Hann var líka nálægt því að fara yfir í þriðju og síðustu tilrauninni sinni.

Duplantis, sem vann silfur á HM 2019 og silfur á EM 2018, vann þarna sín fyrstu gullverðlaun á stórmóti.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.