Fótbolti

Segir viðræður við Messi vera að þokast í rétta átt

Arnar Geir Halldórsson skrifar
Lionel Messi.
Lionel Messi. vísir/getty

Yfirgnæfandi líkur eru á því að Lionel Messi verði áfram hjá spænska stórveldinu Barcelona.

Segja má að Messi sé án félags í dag þar sem samningur hans við Barcelona rann út fyrr í sumar. Mikið hefur verið rætt og ritað um framtíð Argentínumannsins enda renna líklega öll stærstu knattspyrnulið heimsins hýru auga til hans um þessar mundir.

Var jafnvel talið að hann myndi yfirgefa Barcelona í fyrsta sinn á ferli sínum vegna fjárhagsörðugleika félagsins en forráðamenn félagsins virðast vera að sigla samningi við Messi í höfn.

„Við erum að gera allt sem við getum og það gengur vel. Þetta er á leið í rétta átt eins og við vonuðumst eftir í upphafi en viðræðurnar eru enn í gangi,“ segir Joan Laporta, forseti Barcelona.

„Leo vill vera áfram hjá Barca og við erum að gera allt sem í okkar valdi stendur. Sú staðreynd að hann vilji vera hér áfram, þessi besti leikmaður heims, er eitthvað sem við eigum að vera þakklát fyrir,“ segir Laporta.

Messi mun að öllum líkindum taka á sig talsverða launalækkun en þess í stað mun kappinn fá fimm ára samning. Verður það að teljast ansi vel í lagt fyrir 34 ára gamlan sóknarmann.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×