Innlent

Lýsir dvöl á skemmti­ferða­skipi eftir að smit kom upp: „Eftir há­vaða­rif­rildi á ís­lensku snerum við aftur í skipið“

Hallgerður Kolbrún E. Jónsdóttir skrifar
Gestir um borð í skemmtiferðaskipinu Viking Sky voru skikkaðir til að halda sig um borð í skipinu, þrátt fyrir að enginn hafi greinst smitaður nema einn gestanna.
Gestir um borð í skemmtiferðaskipinu Viking Sky voru skikkaðir til að halda sig um borð í skipinu, þrátt fyrir að enginn hafi greinst smitaður nema einn gestanna. Vísir/Vilhelm

„Við vorum búin að keyra í nær klukkustund í fyrstu ferðinni þennan dag – gönguferð þar sem við áttum að læra um íslenskar þjóðsögur um álfa, huldufólk og tröll – þegar leiðsögumaðurinn tilkynnti að við þyrftum að snúa aftur í höfn. Covid-19 hafði greinst um borð í skipinu.“

Þetta skrifar Ashlea Halpern, ferðamaður sem var stödd um borð í skemmtiferðaskipi hér á landi, í bloggfærslu á Condé Nast Traveler. Hún, og aðrir farþegar skipsins voru stödd á Seyðisfirði um miðjan júlí þegar smit kom upp meðal farþega skipsins.

Halpern lagði af stað í ferðina þann 10. júlí síðastliðinn með fjölda annarra Bandaríkjamanna. Hún lýsir því að ein af kröfum fyrir ferðina hafi verið sú að allir gestir væru fullbólusettir. Þrátt fyrir það hafi allir gestir farið daglega í PCR-próf fyrir Covid-19, allir gestir hafi verið hitamældir áður en þeir fóru inn á veitingastaði í skipinu, allir hafi þurft að bera grímur fyrir vitum innandyra og þau hafi öll fengið smitrakningartæki sem fylgdist með öllum þeirra ferðum, kæmi smit upp.

Fyrst hafi verið haldið til Reykjavíkur, og þaðan var keyrt að Langjökli þar sem ferðamennirnir fengu að ganga inn í íshella og skoða jökulinn. Þaðan hafi verið haldið til Ísafjarðar, gengið að Dynjanda og svo til Akureyrar þar sem Bandaríkjamennirnir fengu að spóka sig um í lystigarðinum og njóta veðurblíðunnar.

„Kvíðinn var áþreifanlegur“

Þaðan hafi verið haldið til Seyðisfjarðar og áttu gestir skipsins að ferðast um Austurlandið þegar kallið kom. Einn ferðamannanna hafði greinst með Covid-19.

„Með hverri mínútunni sem leið fóru kjaftasögurnar að ganga. Hversu margir höfðu greinst smitaðir af Covid? Yrðum við skikkuð til að halda til í herbergjunum okkar og vera í einangrun í óákveðinn tíma eins og ferðamennirnir um borð í Diamond Princess í Yokohama á síðast ári? Hvað sem var að gerast, þá var það ekki gott. Kvíðinn var áþreifanlegur,“ skrifar Halpern.

Nokkrum klukkutímum síðar fengu gestirnir að vita hvað var að gerast. Einn, fullbólusettur ferðamaður hafði greinst smitaður af Covid-19. Sá var skikkaður í einangrun í fyrir fram ákveðinni álmu í skipinu auk annars farþega sem var talinn útsettur fyrir smitinu. Sá sem reyndist smitaður fékk svo að ganga í landi í Reykjavík og klára einangrunina á farsóttahúsi.

Smitrakningartækin voru skoðuð og enginn annar gestanna reyndist útsettur fyrir smitinu. Daginn eftir voru allir sendir í PCR-próf til öryggis og í ljós kom að enginn annar var smitaður af veirunni.

„Við vorum að brjóta íslensk lög“

Landhelgisgæslan skipaði skemmtiferðaskipinu að yfirgefa Seyðisfjörð og svo var. Næsta dag lagði skipið að höfn á Djúpavogi og fengu gestir græna ljósið að fara frá borði.

„Ég var ekki búin að ganga þrjá kílómetra í skipulagðri göngu um lúpínuakra þegar kallið kom. Leiðsögumaðurinn okkar fékk neyðarsímtal frá yfirmanninum sínum. Eftir hávaðarifrildi á íslensku tilkynnti hann að við ættum að snúa aftur í skipið – í þetta skipið var okkur sagt að við værum að „brjóta íslensk lög,“ skrifar Halpern.

Hún segir að sóttvarnayfirvöld hafi gefið skemmtiferðaskipinu grænt ljós á að hleypa gestum í land en Landhelgisgæslan hafi ekki verið sammála. Ferðamennirnir hafi því neyðst til að snúa aftur um borð í skipið.

Frá Djúpavogi hafi skipið haldið til Vestmannaeyja en þrátt fyrir að engin fleiri smit hafi greinst um borð hafi Landhelgisgæslan sent skýr skilaboð. Skipið skyldi snúa aftur til Reykjavíkur án tafar.

„Og þar með var fríið okkar búið.“


Tengdar fréttir

Smitaður á siglingu við Íslandsstrendur

Farþegi í skemmtiferðaskipinu Viking Sky hefur verið greindur með Covid-19 smit. Þetta staðfestir Hjördís Guðmundsdóttir, upplýsingafulltrúi Almannvarnadeildar ríkislögreglustjóra, í samtali við Vísi.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.