Innlent

Telur þörf á úr­ræði fyrir þol­endur utan réttar­vörslu­kerfisins

Elma Rut Valtýsdóttir og Vésteinn Örn Pétursson skrifa
Helgi Gunnlaugsson er afbrotafræðingur og prófessor í félagsfræði við Háskóla Íslands.
Helgi Gunnlaugsson er afbrotafræðingur og prófessor í félagsfræði við Háskóla Íslands. Stöð 2

Helgi Gunnlaugsson, afbrotafræðingur og prófessor í félagsfræði við Háskóla Íslands, telur að þörf gæti verið á einhvers konar borgaralegu úrræði fyrir þolendur vægari kynferðisbrota eða annarrar ámælisverðrar hegðunar. Margir þolendur veigri sér við að leita réttar síns og þeir sem það geri telji sig oft hlunnfarna þegar máli þeirra er lokið.

Helgi sagði í viðtali við Morgunblaðið í gær að sú umræða sem nú á sér stað, þar sem konur stíga fram ýmist undir nafni eða ekki og nafngreina meinta gerendur í kynferðisbrotamálum, endurspegli vanmáttugt kerfi.

Hann segir kerfið ekki koma til móts við þolendur sem margir hverjir veigri sér við að leita réttar síns fyrir dómstólum eða telji sig bera skerðan hlut frá borði þegar málum þeirra er lokið innan dómskerfisins.

“Jafnvel þó að við höfum séð ýmsar svona jákvæðar breytingar varðandi svona löggjöf og málsmeðferð á síðustu árum, þá vaknar kannski þessi spurning einmitt hvort að það þyrfti ekki að koma til einhvers konar nýtt úrræði, svona kannski utan réttarvörslukerfisins,“ sagði Helgi í viðtali við fréttastofu.

Slíkt úrræði gæti nýst fórnarlömbum kynferðisafbrota eða ámælisverðrar hegðunar sem vilji leita réttar síns. Helgi telur þó að alvarlegri kynferðisbrot ættu áfram að eiga heima innan réttarvörslukerfisins. Í slíku úrræði telur Helgi að aðilar innan kerfisins gætu komið að málum sem þangað berast.

„Það gætu verið sérfræðingar utan réttarvörslukerfisins, aðilar sem hafa faglega þekkingu á hegðun, samskiptum varðandi tengsl einstaklinga og annað af því tagi. Þannig að það eru svona borgaralegir aðilar en ekki innan réttarvörslukerfisins sjálfs.“



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×