Enski boltinn

Vandræðaleg mistök adidas: Vissu ekki hvað leikmaður Man. Utd. hét

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Millie Turner stendur vaktina í vörn Manchester United með Maríu Þórisdóttur.
Millie Turner stendur vaktina í vörn Manchester United með Maríu Þórisdóttur. getty/John Peters

Íþróttavöruframleiðandanum adidas urðu á vandræðaleg mistök þegar þeir kynntu nýjan búning Manchester United.

Meðal leikmanna sem sátu fyrir í kynningarherferðinni fyrir nýja búninginn var Millie Turner. Þeir sem unnu að kynningarmálum vegna nýja búningsins voru hins vegar ekki alveg með hlutina á hreinu og kölluðu hana Amy Turner. Sú lék með United á árunum 2018-21 en gekk í raðir Orlando Pride í Bandaríkjunum í síðasta mánuði.

Millie Turner tók eftir villunni í auglýsingunni og benti á hana á Twitter. „Í ljósi þess að ég hef verið hjá Manchester United í þrjú ár og hjá adidas í tvö ár myndi maður ætla að adidas myndi hafa nafnið mitt rétt,“ skrifaði Turner.

Amy Turner, sú sem adidas hélt að væri á myndinni, og benti síðan á að villan væri sérstaklega vandræðaleg í ljósi þess að yfirskrift auglýsingarinnar væri „aldrei gleyma hvaðan þú kemur.“

Adidas leiðrétti seinna mistökin og bað Turner afsökunar á þeim. „Millie, við klúðruðum þessu og erum miður okkar. Þú ert hluti af adidas fjölskyldunni og við viljum bæta upp fyrir þetta,“ sagði í færslu frá adidas á Twitter. Adidas bauðst svo til að senda helstu aðdáendum Turners nýja búninginn.

Turner, sem er 25 ára varnarmaður, gekk í raðir United frá Bristol City 2018. Á síðasta tímabili lék hún alla 22 leiki liðsins í ensku ofurdeildinni. United endaði í 4. sæti og missti naumlega af sæti í Meistaradeild Evrópu.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×