Sport

Hlaut brons og setti Íslandsmet

Valur Páll Eiríksson skrifar
Baldvin Þór Magnússon
FRÍ

Hlauparinn Baldvin Þór Magnússon sló vikugamalt Íslandsmet Hlyns Andréssonar í 5000 metra hlaupi er hann hlaut brons í greininni á Evrópumeistaramóti 23 ára og yngri í frjálsum íþróttum sem fram fer í Tallinn í Eistlandi.

Baldvin Þór hljóp metrana 5000 á tímanum 13:45,00 og bætti þannig met sem Hlynur setti fyrir aðeins viku síðan, upp á 13:45,20. Hlynur hafði verið handhafi metsins frá 2019 áður en Baldvin bætti það fyrst í mars á þessu ári. Báðir hafa þeir svo bætt það síðan í ár.

Tími Baldvins dugði honum í þriðja sæti á mótinu en Þjóðverjinn Mohamed Mohumed var fyrstur í mark á tímanum 13:38,69.

Auk Baldvins tóku fjórir aðrir íslenskir keppendur þátt á mótinu. Tiana Ósk Whitworth jafnaði sinn besta tíma í 100 metra hlaupi þar sem hún fór á 12,21 sekúndu. Guðbjörg Jóna Bjarnadóttir fór 200 metra á 24,40 sekúndum.

Erna Sóley Gunnarsdóttir fór í úrslit í kúluvarpi og hafnaði í níunda sæti með kasti upp á 15,75 metra. Þá kastaði Mímir Sigurðsson kringlu lengst 54,54 metra en hann á best rúmlega 60 metra kast á þessu ári.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.