Ljóst er að kveikja mótmælanna er aðferð lögreglu við brottvísun tveggja Palestínumanna síðasta þriðjudag en eftir lýsingum samtakanna að dæma voru mennirnir tveir blekktir til að koma til lögreglu undir því yfirskini að þeir fengju bólusetningarvottorð sín afhent. Þegar þeir mættu til að taka við þeim voru þeir handteknir.
Lögregla hefur ekki viljað staðfesta eða lýsa því sem átti sér stað á þriðjudagsmorgun.
„Við fordæmum ítrekaða ómannúðlega meðferð á fólki á flótta og kerfisbundið ofbeldi Útlendingastofnunar auk lögregluofbeldis í vikunni,“ segir í tilkynningu samtakanna um mótmælafundinn á Facebook.
Það eru samtökin Refugees in Iceland, Solaris – hjálparsamtök fyrir hælisleitendur og flóttafólk á Íslandi, No Borders og Samstaða er ekki glæpur, sem standa fyrir mótmælunum.
Krafan er skýr: Það á að leggja niður Útlendingastofnun.
„Illska Útlendingastofnunar stigmagnast og lögregluofbeldi fylgir í kjölfarið. Það hafa aldrei verið jafn margir á flótta í heiminum og nú og því er nauðsynlegt að stjórnvöld leggi niður Útlendingastofnun og breyti tafarlaust um stefnu í málefnum hælisleitenda,“ segir í tilkynningunni.
Dagskrá fundarins hefur ekki verið kynnt enn en hún verður kynnt síðar.