Innlent

Leit í nótt bar ekki árangur

Óttar Kolbeinsson Proppé skrifar
Þyrla Landhelgisgæslunnar hefur tekið þátt í leitinni.
Þyrla Landhelgisgæslunnar hefur tekið þátt í leitinni. Vísir/Jóhann K.

Leit að er­lendum ferða­manni, sem varð við­skila við eigin­konu sína við gos­stöðvarnar við Fagra­dals­fjall um klukkan þrjú í gær, bar engan árangur í nótt. Þyrla Land­helgis­gæslunnar tekur nú þátt í leitinni.

Á­fram verður leitað að manninum í dag en þegar Vísir náði tali af Gunnari Schram, yfir­lög­reglu­þjóni lög­reglunnar á Suður­nesjum, voru vakta­skipti í þann mund að eiga sér stað og nýtt björgunar­sveitar­fólk að taka til starfa.

Hafa leitað kring um allt hraunið

Spurður hvort ekki sé búið að kemba allt svæðið í kring um hraunið síðan maðurinn týndist segir hann:

„Jú, við teljum okkur vera búin að því og eftir að það létti núna í morgun þá hefur þyrlan verið að fara aftur yfir það svæði. En leitar­skil­yrðin voru ekki góð í nótt, lág­skýjað og þoka.“

Hann segir aðal­lega leitað í kring um það svæði þar sem síðast sást til hans, skammt norður af Stóra Hrúti.

Spurður hvort óttast sé að maðurinn hafi farið út á hraunið sjálft og farið sér að voða segir Gunnar: „Við höfum svo sem ekki haft uppi neinar get­gátur um það. Við bara leitum á­fram að honum og vonum að hann finnist.“

Hann býst við að tölu­vert af fólki sæki gos­stöðvarnar í dag en telur það ekki trufla störf leitar­manna. „Jafn­vel frekar að það sé af hinu já­kvæða að hafa mikið af fólki þarna í dag, sem hefur augun opin fyrir ein­hverju.“



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×