Innlent

„Maður getur aldrei tryggt það að allir verði sáttir“

Óttar Kolbeinsson Proppé skrifar
Birgir Gunnarsson er bæjarstjóri Ísafjarðarbæjar.
Birgir Gunnarsson er bæjarstjóri Ísafjarðarbæjar. vísir/vilhelm

Birgir Gunnars­son, bæjar­stjóri Ísa­fjarðar­bæjar, sér ekki hvað bærinn hefði getað gert öðru­vísi í máli Sifjar Huldar Alberts­dóttur, sem sagði af sér sem bæjar­full­trúi í gær. Hún hefur krafið bæjar­fé­lagið um bætur vegna þess hvernig það tók á kvörtun hennar um ein­elti sem hún segist hafa orðið fyrir af hálfu starfs­manns Ísa­fjarðar­bæjar.

„Ég er búinn að líta yfir farinn veg og ég get í rauninni ekki séð hvað við hefðum getað gert öðru­vísi. Maður getur aldrei tryggt það að allir verði sáttir en það var reynt að vinna þetta eins fag­lega og eins hlut­laust og hægt var,“ segir Birgir í sam­tali við Vísi í dag.

Spurður hvort bæjar­fé­lagið hafi á­kveðið hvort það muni verða við bóta­kröfu Sifjar segir hann: „Nei, nei, þessi yfir­lýsing kom bara í gær þannig við erum enn að reyna að átta okkur á stöðunni.“

Hann vonar að málið hljóti far­sælan endi þó það sé nú sann­kallað „leiðinda­mál“ að hans sögn. „Það er bara þannig.“

Ekki lögð í ein­elti sem bæjar­full­trúi heldur fram­kvæmda­stjóri

Sif Huld sendi frá sér til­kynningu í gær þar sem hún sagðist hafa látið af störfum sem bæjar­full­trúi á Ísa­firði vegna ein­eltis starfs­manns sveitar­fé­lagsins gegn sér. Hún hefur setið í meiri­hluta bæjar­stjórnar sem einn af þremur full­trúum Sjálf­stæðis­flokksins.

Hún gagn­rýndi við­brögð sveitar­fé­lagsins við kvörtun sinni og sagðist hafa gert bóta­kröfu á það.

Bærinn fékk form­lega til­kynningu um málið um miðjan desember síðast­liðinn og var þá á­kveðið að fá ráð­gjafa­fyrir­tækið Attentus til að rann­saka málið. 

Málið heyrir þó undir tvo vinnu­veit­endur, Ísa­fjarðar­bæ og stjórn byggða­sam­lags um mál­efni fatlaðra á Vest­fjörðum, því ein­eltið sem Sif varð fyrir átti sér stað í störfum hennar sem fram­kvæmda­stjóri þessa byggða­sam­lags en ekki sem bæjar­full­trúi. Sá sem beitti hana einelti er hins vegar starfsmaður Ísafjarðarbæjar.

Attentus kynnti síðan niður­stöður rann­sóknar sinnar í mars og sagði ljóst að um ein­elti væri að ræða.

„Í skýrslunni var einnig niður­staða að sveitar­fé­lagið hafi brugðist með því að að­hafast ekki í málinu fyrr, þar sem ég hafði oft sagt frá erfiðum og djúp­stæðum sam­skipta­vanda. Ef sveitar­fé­lagið hefði brugðist við strax hefði það getað orðið til þess að ein­eltið hefði ekki orðið eins al­var­legt og lang­varandi,“ sagði Sif Huld í til­kynningu sinni í gær.

Staða sem enginn óskaði sér

Birgir segist ekki getað tjáð sig um smá­at­riði málsins vegna trúnaðar sem ríkir. Hann sér þó ekki hvernig hefði verið hægt að taka betur á málinu. „Þetta var sam­eigin­legt verk­efni Ísa­fjarðar­bæjar og stjórnarinnar að setja málið í þetta ferli sem það var sett í,“ segir hann.

Og í­trekar svo: „Við höfum reynt að vinna þetta eins fag­lega og hægt er fram að þessu. Og vonandi verður hægt að finna ein­hverja lendingu í málinu.“

Spurður hvernig stemmningin sé innan meiri­hluta Sjálf­stæðis­flokks og Fram­sóknar í bæjar­stjórn þegar bæjar­full­trúi meiri­hlutans segir af sér og gerir bóta­kröfu á bæinn segir hann: 

„Ég svo sem veit það ekki. En auð­vitað þykir mönnum bara leitt að málið skuli fara í þennan far­veg. Þetta er eitt­hvað sem enginn óskar sér og þetta eru alltaf erfið mál og vand­með­farin.“Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.