Innlent

Hættir sem bæjar­full­trúi og krefst bóta vegna ein­eltis

Hallgerður Kolbrún E. Jónsdóttir skrifar
Sif Huld Albertsdóttir, bæjarfulltrúi Ísafjarðarbæjar, hefur sagt af sér störfum vegna eineltis embættismanns bæjarins gegn henni.
Sif Huld Albertsdóttir, bæjarfulltrúi Ísafjarðarbæjar, hefur sagt af sér störfum vegna eineltis embættismanns bæjarins gegn henni. Vísir

Sif Huld Albertsdóttir, bæjarfulltrúi Ísafjarðarbæjar, hefur sagt af sér störfum vegna eineltis embættismanns bæjarins gegn henni. Hún hefur þá gert bótakröfu á hendur bæjarins vegna málsins.

Sif hefur setið í bæjarstjórn síðastliðin þrjú ár fyrir Sjálfstæðisflokkinn. Undanfarið hálft ár hefur rannsókn staðið yfir á einelti af hálfu embættismanns bæjarins gegn henni. Ráðgjafafyrirtækið Attentus var fengið til að taka við málinu og greina vandann.

Í lok mars kynnti Attentus niðurstöður ítarlegrar greiningar sem var unnin með viðtölum við vitni og aðra tengda málinu.

„Niðurstaðan var að um einelti var að ræða og ljóst að ég hafði ítrekað vakið athygli á þessum samskiptum,“ segir Sif í tilkynningu.

„Í skýrslunni var einnig niðurstaða að sveitarfélagið hafi brugðist með því að aðhafast ekki í málinu fyrr, þar sem ég hafði oft sagt frá erfiðum og djúpstæðum samskiptavanda. Ef sveitarfélagið hefði brugðist við strax hefði það getað orðið til þess að eineltið hefði ekki orðið eins alvarlegt og langvarandi.“

„Ég gaf strax út að ég væri tilbúin í sáttameðferð en fékk þau skilaboð að hinn aðilinn væri ekki tilbúin til sátta. En eftir um sjö vikna töf vegna andsvara og seinagangs leggur Ísafjarðarbær til sáttarmeðferð,“ segir Sif í tilkynningunni.

Ísafjarðarbær hefur ekki beðist formlega afsökunar á því hvernig málið hefur þróast og ekki á eineltinu sjálfu að sögn Sifjar. Hún segir að sér finnist stjórnsýslan hafa brugðist í málinu og hún treysti sér því ekki til að starfa áfram sem bæjarfulltrúi.

„Vegna þessa seinagangs og aðgerðaleysis hef ég ákveðið að gera bótakröfu á hendur Ísafjarðarbæjar, þar sem niðurstaðan var ótvírætt, langvarandi einelti. Ég hef falið Sævari Þór Jónssyni lögmanni að gæta réttar míns í málinu,“ segir Sif.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.