Innlent

Von­brigði að þing hafi ekki tekið stjórnar­skrár­frum­varp til efnis­legrar um­ræðu

Atli Ísleifsson skrifar
Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, segir að stjórnarskráin hafi ekki verið meitluð í stein þegar hún var samin.
Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, segir að stjórnarskráin hafi ekki verið meitluð í stein þegar hún var samin. Vísir/Vilhelm

Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, segist hafa orðið fyrir vonbrigðum með að Alþingi hafi ekki tekið frumvarp forsætisráðherra um stjórnarskrárbreytingar til efnislegrar umræðu áður en þingi var frestað.

Þetta sagði Guðni í samtali við fréttastofu RÚV í gærkvöldi, og sagði hann stjórnarskrána hafi ekki verið meitlaða í stein þegar hún var samin.

Frumvarp Katrínar Jakobsdóttur fékk ekki afgreiðslu fyrir þinglok eftir að hafa verið í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd þingsins í um fjóra mánuði.

Í samtali við RÚV sagði hann að ýmsar breytingar á stjórnarskrá séu þess eðlis að um þær verði ávallt ágreiningur. „En maður skyldi ætla að um aðrar þeirra ætti einhvern tímann að nást samstaða, þá væri að mínu mati tímabært að taka til athugunar að breyta ákvæði sem er á þá lund að forseti geti veitt undanþágu frá lögum eins og gert hefur verið hingað til,“ sagði Guðni sem skoraði meðal annars á þingmenn að taka nýja stjórnarskrá til umfjöllunar í ræðu sinni við setningu Alþingis síðasta haust.

Áhyggjuefni

Forseti segist hafa orðið fyrir vonbrigðum með niðurstöðuna. „Eins og fleiri þá varð ég fyrir vonbrigðum já. Með að þessar breytingar hafi ekki orðið að lögum? Ég tjái mig ekki um breytingarnar í sjálfu sér. En að þingið hafi ekki náð að eiga efnislega umræðu um tillögur að breytingu á stjórnarskrá. Það finnst mér áhyggjuefni.“

Katrín lagði fram stjórnarskrárfumvarp sitt í janúar, en um var að ræða svokallað þingmannafrumvarp, en ekki stjórnarfrumvarp. Helstu breytingar sem frumvarpið snerti á tók á verkefnum framkvæmdarvalds, umhverfisvernd, auðlindum náttúru Íslands, íslenskri tungu og forseta Íslands.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.