Innlent

Mótmælendur ruddust inn með spurningar til ráð­herrans

Óttar Kolbeinsson Proppé skrifar
Áslaug hélt kosningakaffi í Borgartúni í dag.
Áslaug hélt kosningakaffi í Borgartúni í dag. instagram/Hildur Sverrisdóttir

Gestum í kosninga­­kaffi Ás­laugar Örnu Sigur­björns­dóttur dóms­­mála­ráð­herra brá mörgum hverjum nokkuð í brún þegar hópur mótmælenda stormaði inn á við­burðinn og flykktist að ráð­herranum með síma á lofti. Þar var hún spurð spjörunum úr um um­­­deilt frum­­varp sitt um breytingar á út­­lendinga­lögum.

„Það bara kom þarna hópur og ræddi við mig um út­­lendinga­­málin og ég svaraði spurningum þeirra og bauð þeim svo bara upp á kaffi eins og öðrum gestum,“ segir Ás­laug í sam­tali við Vísi.

Spurð hvort henni hafi þótt upp­­á­koman ó­­þægi­­leg segir hún: „Nei, nei, þau tóku bara upp sam­talið á síma og ég svaraði öllum þeim spurningum sem að mér var beint.“

Kom eflaust flatt upp á marga

Hópurinn taldi um tíu manns, sem þáðu boð Ás­laugar eftir spurninga­flóðið og settust niður með kaffi­bolla. Meðal þeirra var að minnsta kosti einn hælisleitandi. Ás­laug telur að hópurinn hafi verið á kosninga­kaffinu í um klukku­tíma en það hófst klukkan 15 í dag og stóð til klukkan 17. Ás­laug býður sig fram í fyrsta sæti á lista Sjálf­stæðis­flokksins í Reykja­vík.

Vísir ræddi við gest nokkurn úr kaffinu sem sagði mótmælendurna hafa verið hressa með kaffi og kökur Áslaugar.aðsend

Hópurinn tók síðan eftir Hildi Sverris­dóttur, að­stoðar­manni ferða­mála- iðnaðar- og ný­sköpunar­ráð­herra, sem var mætt á kosninga­kaffið en hún sækist eftir þriðja til fjórða sæti á lista flokksins í Reykja­vík. Sneri fólkið sér þá að Hildi og hélt að henni grein sem hún hafði skrifað árið 2015 um að Ís­land ætti að reyna að hjálpa eins mörgum flótta­mönnum og hægt væri.

Hún stað­festir þetta við Vísi: „Þau spurðu mig hvort ég stæði enn við þessa grein og jú, ég sagði þeim að ég gerði það. Að okkur bæri sjálf­sögð skylda til að að­stoða fólk í neyð, að það væri skylda kerfisins að for­gangs­raða í þágu þeirra sem eru í mestri neyð og þar þurfi kerfið að gæta að jafn­ræði allra,“ sagði Hildur.

„En auð­vitað tekur öll sárt að heyra af að­stæðum hvers og eins í vondri stöðu,“ heldur hún á­fram og segist hafa tekið fram við fólkið að henni þætti það vel gert hvað þau hefðu komið sínum sjónar­miðum mál­efna­lega á fram­færi.

Spurð hvort henni hafi þótt upp­á­koman ó­þægi­leg segir hún: „Nei, nei en ég meina í svona kosninga­kaffi þegar það er fullt af fólki að fá sér köku og styðja sitt fólk í pólitík þá kom þetta ef­laust flatt upp á marga.“

Umdeilt frumvarp

Frum­varp Ás­laugar um breytingar á út­lendinga­lögum hefur verið harð­lega gagn­rýnt af mörgum. Það hefur nokkrum sinnum verið lagt fram, fyrst af Sig­ríði Á Ander­sen þegar hún var dóms­mála­ráð­herra.

Í megin­at­riðum er frum­varpið við­brögð við mikilli fjölgun um­sækj­enda um hæli á Ís­landi og er því ætlað að hraða málsmeðferð þeirra sem hafa hlotið vernd í öðru Evrópuríki og hljóta almennt neikvæða niðurstöðu vegna þess hér á landi.

Í því er einnig lagt til að nokkur á­kvæði reglu­gerðar frá árinu 2017 til að draga úr fjölda um­sókna frá ríkis­borgurum öruggra upp­runa­ríkja verði tekin upp í lögin.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×