Lífið

„Spán­verjinn hlæjandi“ er allur

Atli Ísleifsson skrifar
Juan Joya Borja var þekktur sem El Ristas í heimalandinu.
Juan Joya Borja var þekktur sem El Ristas í heimalandinu. Skjáskot

Spænski grínistinn Juan Joya Borja er látinn, 65 ára að aldri. Það eru ef til vill ekki allir sem kannast við nafnið, en þó fleiri sem kannast við andlitið þar sem Borja varð óvænt stjarna í netheimum árið 2014 þegar þá um tíu ára gamalt sjónvarpsviðtal við hann fór í mikla dreifingu á netinu.

Borja, sem þekktur var sem El Risitas í heimalandinu, er sagður hafa látist á sjúkrahúsi þar sem hann hafði verið inniliggjandi í marga mánuði vegna „langvinns sjúkdóms“. 

Í umræddu viðtali í þættinum Ratones Coloraos fór Borja að hlæja að eigin sögu af því þegar hann fleygði diskum í sjóinn þegar hann var við vinnu á sínum yngri árum. Átti Borja í mestu vandræðum með að segja söguna þar sem hann þótti hún svo fyndin.

Þegar á leið fóru fjölmargir netverjar svo að setja eigin texta við klippuna úr viðtalinu. Gekk brandarinn þá oft út á að sögumaðurinn væri starfsmaður fyrirtækis og að hann væri að segja sögu af því hvað viðskiptavinur eða yfirmaður sögumannsins væri vitlaus.

Hér má sjá upprunalega myndbandið í heild sinni með texta.

Hér má sjá dæmi um jarmútgáfu af myndbandinu þar sem látið er hljóma eins og Borja sé starfsmaður framleiðanda tölvuleiksins Team Fortress 2, og að hann grínist með óvinsælar breytingar sem gerðar höfðu verið á leiknum á þeim tíma.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×