Innlent

„Metnaðarleysi og til skammar fyrir fyrirtæki í eigu almennings“

Snorri Másson skrifar
Neyðarútgangur, ætti að segja þarna að mati fyrrverandi prófessors í íslenskri málfræði. Hann hefur ítrekað bent Strætó bs. á að upplýsingar í strætisvögnum þurfi að vera á íslensku.
Neyðarútgangur, ætti að segja þarna að mati fyrrverandi prófessors í íslenskri málfræði. Hann hefur ítrekað bent Strætó bs. á að upplýsingar í strætisvögnum þurfi að vera á íslensku. Eiríkur Rögnvaldsson

Eiríkur Rögnvaldsson, prófessor emeritus í íslenskri málfræði, gagnrýnir að Strætó bs. hafi ekki enn gert umbætur á merkingum í strætisvögnum sínum, þar sem víða eru enn aðeins leiðbeiningar á ensku.

Eiríkur segir það sjálfsagt metnaðarmál að allar upplýsingar í strætisvögnum, svo sem merkingar um útganga og sérstök svæði innan vagnsins, séu á íslensku. Hann gerir engar athugasemdir við að merkingarnar skuli einnig vera til staðar á ensku, en að enskan megi alls ekki koma í stað íslensku. 

Í færslu sem Eiríkur skrifar um málið á fésbókarhópnum Málspjallinu kveðst hann hafa skrifað upplýsingafulltrúa Strætó oftar en einu sinni um málið. 

Fyrir þremur árum var svarið þetta: „Samkvæmt öllum gæðastöðlum þá eiga að vera leiðbeiningar á íslensku í öllum bílunum. Við þurfum greinilega að láta yfirfara alla vagnana.“ Eins og Eiríkur bendir á, er ljóst að þetta hefur ekki skilað árangri. 

Upplýsingar í strætisvögnum eiga að vera á íslensku, rétt eins og önnur skilaboð frá opinberum aðilum. Þær eru einungis á ensku í fjölda vagna.Eiríkur Rögnvaldsson

Að mati Eiríks verða allar upplýsingar, svo ekki sé talað um mikilvægar öryggisleiðbeiningar, að vera á íslensku. „Það er í samræmi við íslenska málstefnu og einnig málstefnu Reykjavíkurborgar,“ skrifar Eiríkur.

„Það er metnaðarleysi og til skammar fyrir fyrirtæki í eigu almennings að hafa þetta svona. Það þýðir ekkert fyrir Strætó að skjóta sér á bak við það að þetta séu vagnar í eigu verktaka – það væri auðvelt að setja í samninga ákvæði um að allar merkingar skuli vera á íslensku,“ segir Eiríkur og ítrekar um leið að hann geri engar athugasemdir við að einnig séu upplýsingar á ensku í vögnunum. Þvert á móti, sjálfsagt sé að hafa þær einnig til viðbótar við íslensku.

Eiríkur Rögnvaldsson


Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.