Innlent

Pétur Markan skráður í Við­reisn og að­­stoðar við upp­­­stillingu

Sylvía Hall skrifar
Pétur G. Markan er nú skráður í Viðreisn.
Pétur G. Markan er nú skráður í Viðreisn. Stöð 2

Pétur Georg Markan, samskiptastjóri Biskupsstofu, er nú skráður í Viðreisn og er hluti af teymi sem stillir upp á lista flokksins í Norðvesturkjördæmi fyrir næstu kosningar. Hann er þó sjálfur ekki í framboði og kveðst ekki hafa leitast eftir því.

Þetta staðfestir Pétur í samtali við Vísi í kvöld, en hann greindi frá því í gær að hann hefði sagt sig úr Samfylkingunni eftir að hafa fylgt flokknum frá stofnum. Hann segist ekki skilja við Samfylkinguna í illu og að ákvörðunin um að ganga í Viðreisn hafi komið til eftir á.

„Úrsögn mín úr Samfylkingunni hefur ekkert með það að gera. Ég er búinn að vera í Samfylkingunni frá stofnun og þegar ég skrifaði þennan status, þá var það fyrst og fremst einhver sem er að skilja við stjórnmálahreyfingu til 22 ára,“ segir Pétur.

Pétur er nú hluti af teymi sem vinnur að uppstillingu lista flokksins í Norðvesturkjördæmi. Hann segir skráningu sína í Viðreisn ekki vera frekara innlegg í kosningabaráttuna sem er fram undan næstu mánuði, en honum hafi þótt eðlilegt að gera upp tíma sinn í Samfylkingunni með færslunni í gær þar sem hann hafi verið hluti af flokknum lengi.

Í færslunni sagðist Pétur áfram vera jafnaðarmaður í huga og hjarta en pólitískur ágreiningur hafi valdið því að hann ákvað að segja skilið við flokkinn. Hann hafi því velt því fyrir sér hvort það væri ekki ljós að finna annars staðar.

„Nú hefur erindi Samfylkingarinnar breyst frá því að vera breiðfylking yfir í pólitískt jaðarsamfélag vina. Allt er breytingum háð. Í ljósi þessa hef ég sjálfur ekki lengur erindi innan flokksins, vilja til fylgja honum eða félagslega uppörvun. Það hefur fyrst og fremst birst í því að ég hef ekki viljað gefa kost á mér til trúnaðarstarfa eða verið í framboðs hugleiðingum.“Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.