Lífið

Eins og að horfa inn í stóran pítsuofn

Sylvía Rut Sigfúsdóttir skrifar
Til vinstri má sjá skjáskot úr myndbandi Chris Burkard. Til hægri er myndin sem ljósmyndarinn Kévin Pages tók af manninum ofan á hrauninu.
Til vinstri má sjá skjáskot úr myndbandi Chris Burkard. Til hægri er myndin sem ljósmyndarinn Kévin Pages tók af manninum ofan á hrauninu. Samsett/Chris Burkard-KÉVIN PAGÈS

Ljósmyndarinn Chris Burkard er staddur á Íslandi og hefur farið nokkrar ferðir upp að gosinu til að mynda, meðal annars fyrir National Geographic.

Eins og kom fram í viðtali við Íslandsvinin hér á Vísi í síðustu viku, var það tilviljun að hann var staddur hér þegar eldgosið hófst. Chris náði ásamt tveimur öðrum að vera fyrstu hjólreiðakapparnir sem hjóla þvert yfir Ísland að vetri til. 

Chris hjólaði upp að eldgosinu um helgina, aðeins 48 tímum eftir að hann hjólaði þvert yfir Ísland á sex dögum. Þar tók hann myndband sem sýnir vel hvernig ástandið er undir nýja hrauninu í kringum eldgosið. Hann líkir þessu við að horfa inn í pítsuofn. 

Það vakti athygli á Vísi í gær frétt um að maður gekk ofan á hrauninu á laugardag til þess að komast nær gígunum fyrir símamyndatöku.  Ef horft er á myndband Chris sést vel hversu ótrúlega hættulegt það er að ganga á þessu nýstorknaða hrauni.

Síðustu vikur hafa líka sýnt að nýjar sprungur geta myndast fyrirvaralaus, ein þeirra opnaðist einmitt undir nýju hrauni sem runnið hafði úr gosinu.  Myndband Chris má sjá í færslunni hér fyrir neðan. 

Töluvert hefur verið um að fólk sé að fara of nálægt hrauninu. Yfirlögregluþjónn sagði í samtali við fréttastofu um helgina að fólk sé að fara langt inn á skilgreint hættusvæði á Reykjanesskaga þrátt fyrir ítrekuð fyrirmæli um annað. Sumir taki tilsögn viðbragðsaðila ekki vel.

Um helgina þurfti líka að vísa frá illa búnu göngufólki. Opnað verður fyrir umferð að gosstöðvum á hádegi í dag en þangað til er fólk þar á eigin ábyrgð.


Tengdar fréttir

Gekk á nýju hrauni rétt fyrir sprengingu

Ljósmyndari sem var á ferð við hraun úr gossprungunni á Reykjanesi sem opnaðist á öðrum degi páska varð vitni að því að maður fór upp á nýtt hraunið til að komast nær rennandi hrauntaumunum Nokkrum mínútum síðar varð sprenging neðanjarðar sem skók alla nærstadda.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×