Innlent

Leggja til endurupptöku aðildarviðræðna við ESB

Sunna Sæmundsdóttir skrifar
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, formaður Viðreisnar, er flutningsmaður tillögunnar.
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, formaður Viðreisnar, er flutningsmaður tillögunnar. Vísir/Vilhelm

Þingflokkur Viðreisnar hefur lagt fram þingsályktunartillögu um endurupptöku viðræðna um aðild að Evrópusambandinu.

Verði ályktunin samþykkt á Alþingi yrði ríkisstjórninni falið að hefja undirbúning viðræðna og forsætisráðherra falið að skipa þriggja manna nefnd, að höfðu samráði við þingflokka, til að stýra vinunni. Hlutverk nefndarinnar yrði að meta hvernig og hvenær hefja skuli formlegar aðildarviðræður að nýju og undirbúa tillögu til þingsályktunar um það.

Yrði sú tillaga samþykkt yrði málið borið undir þjóðaratkvæði til endanlegrar staðfestingar. Gert er ráð fyrir að atkvæðagreiðslan fari fram eigi síðar en í janúar á næsta ári.

Í greinargerð er vísað í sambærilega þingsályktunartillögu sem samþykkt var á Alþingi í júlí 2009 en samkvæmt henni var ríkisstjórninni falið að leggja inn aðildarumsókn og efna til þjóðaratkvæðagreiðslu. Bent er á að Alþingi hafi ekki ályktað á annan veg síðan.

„Afleiðingar kórónuveirufaraldursins hafa gjörbreytt efnahagslegum aðstæðum. Ísland þarf af þeim sökum að nýta öll möguleg tækifæri sem örvað geta nýsköpun, eflt viðskipti og styrkt hagvöxt. Aukin alþjóðleg samvinna er óhjákvæmileg í þeim tilgangi. Loftslagsmálin kalla einnig á að ný skref verði stigin á þessu sviði. Lokaskrefið til fullrar aðildar að Evrópusambandinu er nærtækasti og áhrifaríkasti kosturinn í þessu efni,“ segir í tillögunni.

Hér má lesa þingsályktunartillöguna.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×