Innlent

Ný af­brigði á­hyggju­efni fyrir sam­fé­lagið

Sylvía Hall skrifar
Páll Matthíasson, forstjóri Landspítala.
Páll Matthíasson, forstjóri Landspítala. Lögreglan

Páll Matthíasson, forstjóri Landspítalann, segir álagið á spítalann hafa aukist upp á síðkastið. Til skoðunar er hvort hækka eigi viðbúnaðarstig spítalans úr óvissustigi yfir á hættustig en ný afbrigði veirunnar munu ekki hafa áhrif á verklag á spítalanum.

Alls greindust 26 kórónuveirusmit frá föstudegi til sunnudags, þar af sjö innanlands. Af þeim nítján landamærasmitum sem greindust um helgina eru tíu skipverjar um borð á súrálsskipi sem lagði að bryggju á Reyðarfirði, en skipið kom frá Brasilíu.

Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir sagði í samtali við RÚV í dag að gengið væri út frá því að um brasilíska afbrigði veirunnar væri að ræða í tilviki skipverjanna. Afbrigðið er talið meira smitandi og mögulega ónæmara fyrir bóluefnum en önnur afbrigði. Allt kapp er þó lagt á að koma í veg fyrir að smit berist út í samfélagið.

„Við erum með um sextíu manns núna sem við erum að sinna á Covid-19 göngudeildinni. Við vorum komin með þrjá í innlögn á smitsjúkdómadeild okkar A7 í morgun,“ sagði Páll í kvöldfréttum Stöðvar 2 í kvöld.

Farsóttanefnd Landspítalans fundaði í hádeginu í dag og ræddi þann möguleika að færa viðbúnaðarstig spítalans af óvissustigi yfir á hættustig, en óvissustig hefur verið frá því í nóvember. Verði spítalinn færður upp á hættustig verða breytingar gerðar á starfsemi hans til þess að auka þjónustu við Covid-sjúklinga.

Páll segir spítalann viðhafa fyllstu smitgát í sinni starfsemi og verklagið muni ekki breytast. Almenningur þurfi þó að huga að smitvörnum sem aldrei fyrr.

„Það er vissulega áhyggjuefni fyrir samfélagið. Varðandi Landspítala þá sýnum við fyllstu smitgát og höfum ákveðið verklag og það breytist ekki þó að um þessi afbrigði sé að ræða. Hins vegar má segja almennt um samfélagið að það er full ástæða fyrir fólk að huga sem aldrei fyrr að persónubundnum sóttvörnum.“

Viðtal við Pál í kvöldfréttum Stöðvar 2 má sjá hér að neðan.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×