Innlent

Þetta vitum við um eldgosið í Geldingadal

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Þó gosið sé lítið er það óumdeilanlega mikið sjónarspil.
Þó gosið sé lítið er það óumdeilanlega mikið sjónarspil. Vísir/Vilhelm

Eldgos hófst í Geldingadal við Fagradalsfjall klukkan 20:45 í gærkvöldi. Klukkan 21:36 hringdi kona inn á fréttastofu Stöðvar 2, Vísis og Bylgjunnar og velti því upp hvort gos væri mögulega hafið á Reykjanesskaga. Hún taldi sig hafa séð rauðan bjarma á vefmyndavél sem hún var að fylgjast með.

Stuttu síðar hringdi maður inn á fréttastofuna sem kvaðst vera staddur nærri gosstöðvunum. Hann sagðist einnig sjá rauðan bjarma og var nokkuð viss um að gos væri hafið.

Klukkan 21:45 birti Vísir fyrstu fréttina um að Veðurstofa Íslands væri að skoða hvort gos væri hafið við Fagradalsfjall.

Í vaktinni hér fyrir neðan má fylgjast með öllu því helsta sem gerist í tengslum við gosið.

Tíu mínútum síðar barst svo tilkynning frá náttúruvársérfræðingum á vakt Veðurstofunnar þar sem staðfest var að eldgos væri hafið í Fagradalsfjalli. Fluglitakóði var orðinn rauður en mjög lítill órói sást á jarðskjálftamælum. Eldgosið er sögulegt þar sem ekki hefur gosið á Reykjanesskaga í 800 ár þar til nú. Gosið er lítið og engin hætta talin stafa af því.

Gosið er í Geldingadal austan við Fagradalsfjall.Vísir/Hjalti

Almannavarnir beindu því strax til fólks að halda sig heima og fylgjast með fréttum í stað þess að þjóta af stað til þess að fylgjast með nýhöfnu gosi. Samhæfingarmiðstöð almannavarna var virkjuð sem og aðgerðarstjórn á Suðurnesjum og neyðarstigi almannavarna lýst yfir.

Reykjanesbrautinni og Grindavíkurvegi var lokað en Suðurstrandarvegur var þegar lokaður vegna skemmda. Reykjanesbrautin og Grindavíkurvegur voru opnuð síðar um kvöldið þegar stefna hraunflæðis lá fyrir. Suðurstrandarvegur er enn lokaður.

Þyrla Gæslunnar og flugvél Isavia flugu yfir gosstöðvarnar

Skömmu eftir klukkan 22 fór þyrla Landhelgisgæslunnar í loftið til að fljúga yfir svæðið. Um borð í þyrlunni voru meðal annars Kristín Jónsdóttir, jarðeðlisfræðingur og hópstjóri náttúruvárvöktunar á Veðurstofunni, og Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, dómsmálaráðherra, sem var í beinni úr þyrlunni á Instagram-síðu sinni.

Vilhelm Gunnarsson, ljósmyndari Vísis, náði glæsilegum myndum af gosinu á tíunda tímanum í dag.Vísir/Vilhelm

Upp úr klukkan hálfellefu fór síðan flugvél Isavia einnig í loftið með fleiri vísindamenn, þar á meðal Magnús Tuma Guðmundsson, prófessor í jarðeðlisfræði við Háskóla Íslands. Á þessum tímapunkti var ekki vitað mikið um gosið, eins og til dæmis hvar upptök þess væru nákvæmlega. Flugin tvö voru meðal annars farin í þeim tilgangi að komast að því.

Mikið hafði mætt á Grindvíkingum í aðdraganda gossins vegna þeirra gríðarlegu skjálftavirkni sem verið hefur í nágrenni bæjarins síðustu þrjár vikur. Það hafði þó verið tiltölulega rólegt síðustu daga og í fyrrinótt, aðfaranótt föstudags, mældust til að mynda „aðeins“ 250 skjálftar við Fagradalsfjall.

Það var því ekki endilega búist við því að eldgos myndi hefjast á föstudagskvöldið og það kom raunar þeim öllum á óvart; Fannari Jónassyni, bæjarstjóra í Grindavík, Benedikt Ófeigssyni, jarðeðlisfræðingi hjá Veðurstofunni og Kristínu.

Þannig var Fannar ekki í Grindavík þegar gosið hófst heldur var hann skroppinn austur fyrir fjall. Hann brunaði af stað heim á leið þegar hann heyrði af gosinu og fékk forgangsakstur á Suðurstrandarvegi sem var lokaður.

„Þetta var frekar óvænt. Það var einhvern veginn þannig ástand þegar leið á daginn að þetta væri mjög ólíklegt að eitthvað myndi gerast og frekar rólegt yfir þannig að ég brá mér aðeins austur fyrir fjall eftir nokkrar vikur og þá gerist þetta,“ sagði Fannar í samtali við Vísi á ellefta tímanum.

„Það fer ótrúlega lítið fyrir þessu“

Þá sagði Benedikt í kvöldfréttum RÚV í gærkvöldi að hann ætti síður von á eldgosi. Sú frétt var raunar efst á forsíðu ruv.is þegar fyrstu fréttir bárust af mögulegu gosi. Það vakti töluverða athygli netverja og birtu fjölmargir skjáskot af fréttinni ásamt léttu gríni.

Vísir ræddi við Benedikt þegar gosið var nýhafið sem sagði að það hefði komið sér aðeins á óvart að það fór að gjósa.

„En þannig leit þetta út á öllum mælitækjum að þetta sé í rénun og lítur reyndar enn út þannig. Mjög lítil virkni er, einhver órói en ekkert sem æpir á mann. Það fer ótrúlega lítið fyrir þessu, nema bara bjarminn. Ekki í fyrsta sinn sem þetta gerist svona,“ sagði Benedikt.

Djúpur dalur fjarri byggð

Upp úr klukkan 23 lá fyrir hvar upptök eldgossins væru. Vísir ræddi við Pál Einarsson, jarðeðlisfræðing, sem sagði gosið koma upp á einhverjum heppilegasta stað á Reykjanesskaganum sem mögulegt væri.

Geldingadalur er lokaður dalur fjarri byggð, djúpur og afrennslislaus. Hann er á bak við fjöll, austan við Fagradalsfjall, þar sem skjálftavirknin hefur verið hvað mest síðustu daga.

„Þetta er í lokuðum dal þannig að þarna má mikið hraun renna áður en það fer að fara eitthvað frá upptökunum. Þetta er einhver heppilegasti staður á Reykjanesskaga fyrir hraungos,“ sagði Páll.

Byggðarlög á Reykjanesskaga eru því ekki í hættu vegna hraunrennslis en fólk þarf að huga að mögulegri gasmengun sem getur orðið vegna gossins.

Páll var spurður að því hvort að það hefði komið honum á óvart að það hefði farið að gjósa. Hann svaraði því til að það hefði alls ekki komið á óvart. Þetta hefði verið ein af þeim sviðsmyndum sem búist hafði verið við síðan jarðskjálftavirknin hófst við Fagradalsfjall og kvika fór að flæða inn í kvikugang sem myndaðist milli Fagradalsfjalls og Keilis.

Stutt og lítið gos langlíklegast

Eldgosið kom aftur á móti Kristínu Jónsdóttur á óvart. Rætt var við hana í beinni útsendingu í aukafréttatíma Stöðvar 2 sem hófst upp úr klukkan 23:30. Þá var hún nýlent úr könnunarflugi með þyrlu Gæslunnar.

Hún lýsti gosinu á þann veg að það væri sprungugos. Sprungan væri 500 til 700 metrar og hraun rynni í tvær áttir, annars vegar til suðurs og hins vegar til vesturs.

Almannavarnir mæla gegn því að fólk reyni að komast að svæðinu.Vísir/Vilhelm

Kristín sagði ólíklegt að hraun kæmi til með að renna nálægt byggð eða að gosið myndi hafa áhrif á innviði á svæðinu. Þá væri gosið ekki stórt enn sem komið væri.

Kristín var spurð að því hvort gosið hefði komið henni á óvart.

„Já, það gerði það en Páll Einarsson var búinn að tala um þeirra reynslu frá Kröflueldum sem var sú að það var einmitt sem það dró úr þessum merkjum sem við höfum séð að hefur dregið úr, þessari aflögun og skjálftavirkninni. Þegar maður heldur að allt sé að verða búið, það er þá sem þetta gerist. Þannig að ég hafði það svo sem alltaf í bakhöfðinu,“ sagði Kristín.

Kröflueldar voru hrina eldgosa og kvikuhlaupa sem urðu við Kröflu á árunum 1975 til 1984. Spurð út í hvort atburðirnir nú gætu varað mjög lengi sagði Kristín möguleika á ýmsu. Aftur á móti væri stutt og lítið gos langlíklegast.

„Algengustu gosin standa yfir í einhverja daga eða nokkrar vikur þannig að það er líklegasta sviðsmyndin.“

Í færslu á Facebook-síðu Jarðvísindastofnunar Háskóla Íslands sem birt var í nótt segir að gossprungan sé 0,5 til einn kílómetri á lengd með stefnu suðvestur-norðaustur.

„Hraunið rennur niður í Geldingadal og safnast þar fyrir. Gosið er frekar lítið, svipað gosinu á Fimmvörðuhálsi fyrir réttum 11 árum síðan,“ segir í færslunni.

Fólk haldi sig fjarri svæðinu á meðan vísindafólk er að meta stöðuna

Þá var einnig rætt við Víði Reynisson, yfirlögregluþjón hjá almannavörnum, í aukafréttatíma Stöðvar 2. Hann var á leiðinni í langþráð sumarfrí þegar það byrjaði að gjósa og hann var ræstur út.

Víðir undirstrikaði í viðtalinu að engin bráðahætta væri á ferðum og benti til að mynda á að hraunendarnir væru í 2,6 kílómetra fjarlægð frá Suðurstrandarvegi. Þá væri flugumferð um Keflavíkurflugvöll með eðlilegum hætti.

Almannavarnir væru helst að velta gasmenguninni fyrir sér. Sérfræðingar Veðurstofunnar fóru að gosstöðvunum í nótt til að mæla gasútstreymi en niðurstöður úr þeim mælingum liggja ekki fyrir.

Í tilkynningu sem barst frá almannavörnum í nótt segir að helst megi búast við gasmengun í Þorlákshöfn og eru íbúar þar beðnir um að halda sig inn og loka gluggum. Þá var ákveðið að rýma Krísuvíkurskóla og var því fjöldahjálparstöð opnuð í Grindavík á vegum Rauða krossins.

Almannavarnir mælast eindregið til þess að fólk haldi sig fjarri svæðinu á meðan vísindafólk er að meta stöðuna en björgunarsveitin Þorbjörn þurfti í gærkvöldi að aðstoða illa búið fólk í grennd við gosstöðvarnar sem ætlaði að berja gosið augum.

„Eins og staðan er núna er enginn heppilegur útssýnisstaður á svæðinu í kringum gossvæðið. Almannavarnir biðla til fólks að hafa í huga að þetta svæði er varhugavert, bæði vegna loftmengunar frá gosi og þess að landslagið getur verið erfitt yfirferðar,“ segir í tilkynningu almannavarna sem hafa boðað til upplýsingafundar klukkan 14 á laugardag.

Uppfært 20. mars kl. 13:45:

Almannavarnir hafa nú farið af neyðarstigi og niður á hættustig. Þá hafa vísindamenn nú áætlað nákvæmari stærð gossprungunnar eftir að hafa farið yfir svæðið í dagsbirtu í morgun.

Sprungan er 180 metra löng og er hraunrennslið um tíu rúmmetrar á sekúndu. Vísindamenn segja gosið mjög lítið og það minni mest á gosið á Fimmvörðuhálsi árið 2010.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira
×