Innlent

Guðjón hættir á þingi

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Guðjón S. Brjánsson, þingmaður Samfylkingar.
Guðjón S. Brjánsson, þingmaður Samfylkingar. Vísir/vilhelm

Guðjón S. Brjánsson þingmaður Samfylkingarinnar mun ekki gefa kost á sér í flokksvali Samfylkingarinnar í Norðvesturkjördæmi sem haldið verður nú í mars. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Guðjóni sem send var fjölmiðlum nú síðdegis.

Guðjón hefur setið á þingi fyrir Samfylkinguna síðan árið 2016. Hann hefur á þeim tíma meðal annars setið sem fyrsti varaforseti Alþingis og í hinum ýmsu nefndum.

Guðjón segir í tilkynningu að stjórnmálin hafi átt hug hans allan undanfarin ár.

„[…] og ég hafði stefnt á að gefa kost á mér næstu fjögur ár en hugur minn fylgdi ekki lengur hjarta þegar kom að ákvarðanatöku. Mig langar að eyða meiri tíma með minni fjölskyldu og fylgjast með barnabörnunum dafna og þroskast sem ég hef ekki haft nægilegan tíma til að gera,“ segir Guðjón.

„Ég er þakklátur fyrir þann heiður að hafa fengið að sitja á Alþingi fyrir hönd jafnaðarmanna og að hafa barist fyrir hagsmunum landsmanna allra á þingi. Ég þakka öllum mínum kjósendum í Norðvesturkjördæmi og samstarfsfélögum fyrir stuðninginn á liðnum árum.“

Guðjón leiddi lista Samfylkingarinnar í Norðvesturkjördæmi í síðustu alþingiskosningum og er nú eini þingmaður Samfylkingar úr kjördæminu.

Samfylkingin gaf út í lok febrúar að auglýst yrði eftir frambjóðendum í Norðvesturkjördæmi til alþingiskosninga sem fram fara í haust. Kosið verður um fjögur efstu sætin á framboðslistanum á auknu kjördæmisþingi og verður stuðst við reglur um paralista.

Fréttin hefur verið uppfærð.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×