Innlent

Lands­menn hafa boðið Grind­víkingum sumar­bú­staði til jarð­skjálfta­hvíldar

Hallgerður Kolbrún E. Jónsdóttir skrifar
Fannar Jónasson, bæjarstjóri í Grindavík, segir að fjöldi Grindvíkinga hafi flúið bæinn til þess að hvíla sig á jarðskjálftunum.
Fannar Jónasson, bæjarstjóri í Grindavík, segir að fjöldi Grindvíkinga hafi flúið bæinn til þess að hvíla sig á jarðskjálftunum. VÍSIR/SKJÁSKOT

Bæjarstjóri Grindavíkur segir að fjöldi Grindvíkinga hafi flúið bæinn til þess að hvíla sig á jarðskjálftunum. Margir hafi ekki fengið nætursvefn svo dögum skipti og biðlar hann til hóteleigenda að bjóða Grindvíkingum hagstæð tilboð svo þeir komist burt.

„Við höfum fengið aðeins af svoleiðis tilboðum, eins og sumarbústaði, fólk sem á sumarbústaði vill af góðmennsku sinni og manngæsku bjóða þá fram. Þeir sem eru tilbúnir til þess eru auðvitað boðnir velkomnir til þess að hafa samband við okkur hjá Grindavíkurbæ,“ sagði Fannar Jónasson, bæjarstjóri Grindavíkur í kvöldfréttum Stöðvar 2.

Hann hvetur hóteleigendur til þess að hafa samband við bæinn svo hægt sé að bjóða Grindvíkingum hótelherbergi annars staðar á landinu á hagstæðu verði.

„Líka vil ég nefna það að hóteleigendur sem að vilja koma með okkur að þessu verkefni, þeir hafi samband og við reynum að finna út hagstæð verð fyrir alla,“ segir Fannar.

Til tals að aðstoða fólk að komast annað

Grindvíkingar hafa óskað eftir því að stjórnvöld, sveitarfélagið eða ríkið, komi að því að finna húsnæði annars staðar á landinu fyrir íbúa. Fannar segir það hafa komið til tals en því miður eigi þess ekki allir kosts.

„Þetta hefur komið til tals og er eitt af því sem við viljum skoða og koma til móts við íbúa okkar. Það eiga þess ekki allir kosts en sumir hafa leitað uppi hagstæð tilboð á hótelum einhvers staðar fjarri Grindavík og aðrir hafa komið sér fyrir yfir nóttina hjá vinum og ættingjum á höfuðborgarsvæðinu,“ segir Fannar.

„Við viljum vissulega reyna að finna leiðir til þess að fólkinu okkar líði ekki svona illa,“ segir hann.

Hann segist skilja vel að bæjarbúar finni smá sálarró bara við það að komast í burt yfir helgi.

„Sérstaklega þegar það nær ekki nætursvefni nótt eftir nótt og er haldið kvíða dagana á milli, þá er þetta auðvitað lýjandi og slítandi. Ég skil þetta mjög vel að fólk vilji breyta um umhverfi.“


Tengdar fréttir

Húsbyggingar þola vel jarðskjálftaálagið undanfarið

Sérfræðingur  hjá Náttúruhamfaratryggingu Íslands segir hús hér á landi  þola vel langvarandi skjálftahrinu eins og staðið hefur undanfarið. Það sé ekki fyrr en skjálftar verð sex eða stærri að þeir geti haft áhrif á burðavirki húsa. Þó slíkur skjálfti yrði í tengslum við hrinuna á Reykjanesi þá yrði hann það fjarri byggð að hann myndi líklega ekki hafa áhrif á burðavirki húsa. Fimmtíu þúsund skjálftar hafa orðið frá því hrinan hófst.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×