Innlent

Þátttaka í prófkjöri Pírata tilefni til bjartsýni

Þórgnýr Einar Albertsson skrifar
Elsa Kristjánsdóttir, framkvæmdastjóri Pírata, segir prófkjörið hafa farið hægar af stað en fyrir síðustu kosningar.
Elsa Kristjánsdóttir, framkvæmdastjóri Pírata, segir prófkjörið hafa farið hægar af stað en fyrir síðustu kosningar. Píratar

Prófkjöri Pírata fyrir Alþingiskosningarnar í haust lýkur á laugardag.

Elsa Kristjánsdóttir, framkvæmdastjóri Pírata, segir prófkjörið hafa farið hægar af stað en fyrir síðustu kosningar.

„Ég var búin að finna tölur frá 2017 fyrir Reykjavík norður og suður. Þá kaus 721, nú erum við komin í 270 atkvæði og tveir rúmir sólarhringar til stefnu. Þannig ég vona að þetta taki kipp og við náum yfir 500 en það verður að koma í ljós.“

Á landsvísu hafi nú 463 greitt atkvæði. 31 sé í framboði í Reykjavík norður og suður samanborið við 37 síðast. Svipuð staða sé í öðrum kjördæmum. Þá segir hún fjölda nýrra frambjóðenda gefa kost á sér.

„Það hefur nefnilega verið bæði mikið af sterkum eldri pírötum og mikið af sterkum nýliðum þannig við erum með mjög blandaðan hóp í öllum kjördæmum.“

Þetta segir Elsa að lofi góðu fyrir kosningarnar í haust.

„Það hafa auðvitað verið einhverjar áhyggjur af þessari nýliðun hjá okkur en það er svo mikið í takt við það sem við erum að reyna að gera og þetta virðist vera að virka. Við erum að fá bæði sama fólk aftur á lista og stuðning frá fyrrverandi þingmönnum og varaþingmönnum og mikið af nýju fólki sem er að meina þetta, þannig það er mjög góð stemning yfir því almennt. Við erum mjög bjartsýn.“

Niðurstöður ættu að liggja fyrir í flestum kjördæmum á laugardaginn og listar fyrir Reykjavíkurkjördæmin tvö eftir helgi.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×