Innlent

Eldgos „líklegra og líklegra með hverjum degi sem líður“

Sunna Kristín Hilmarsdóttir og Sunna Sæmundsdóttir skrifa
Kristín Jónsdóttir, hópstjóri náttúruvárvöktunar á Veðurstofu Íslands, telur eldgos á Reykjanesskaga líklegra með hverjum deginum sem líður.
Kristín Jónsdóttir, hópstjóri náttúruvárvöktunar á Veðurstofu Íslands, telur eldgos á Reykjanesskaga líklegra með hverjum deginum sem líður. Vísir/Vilhelm

Kristín Jónsdóttir, hópstjóri náttúruvárvöktunar á Veðurstofu Íslands, segir að það verði að teljast líklegra og líklegra með hverjum deginum sem líður að kvika nái að brjóta sér leið upp á yfirborðið í eldgosi á Reykjanesskaganum.

Þetta kom fram í viðtali við Kristínu í beinni útsendingu í hádegisfréttum Bylgjunnar í dag. Gervitunglamyndir sýndu að kvikugangurinn sem myndast hefði milli Keilis og Fagradalsfjalls væri enn að stækka og myndast.

„Og það er þrýstingur að byggjast upp í þessum kvikugangi,“ sagði Kristín.

Greint hefur verið frá því að talið sé að kvikan sé á um eins kílómetra dýpi. Aðspurð hversu líklegt hún telji að kvikan brjóti sér leið upp á yfirborðið sagði Kristín:

„Ég held að það verði bara að teljast líklegra og líklegra með hverjum degi sem líður.“

Þannig að þú reiknar fremur með því en ekki?

„Á meðan þetta er í gangi, á meðan við erum að sjá þessar færslur, að þarna er kvika greinilega að koma inn í þennan gang og þessir skjálftar eru viðbragð við því þá verðum við að búast við því að það geti orðið gos þarna,“ sagði Kristín.

Hún sagði mjög erfitt að vinna með einhvern tímaramma í þessu.

„Hugsanlega á næstu dögum en það er erfitt að segja.“Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×