Mikil jarðskjálftavirkni hefur verið á Reykjanesskaganum frá því í síðustu viku en í gær beindust allra augu að Keilissvæðinu þegar vart varð við óróapúls sem er gjarnan undanfari eldgoss um miðjan daginn.
Púlsinn mældist suður af fjallinu Keili við Litla-Hrút. Virknin hefur haldið áfram í dag þó að aðeins hafi dregið úr henni frá því í gær. Gervihnattarmynd sem barst vísindaráði almannavarna í dag sýndi ekki sjáanlegar breytingar á svæðinu.
Vísir er með vefmyndavélar við Kálfatjörn á Vatnsleysuströnd sem er beint að Keili. Önnur þeirra er hitamyndavél og ætti því að fanga eldgoss jafnvel þó að myrkur sé skollið á.