Enski boltinn

Solskjær segir að Man Utd verði að sýna ábyrgð og raunsæi í peningamálunum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Ole Gunnar Solskjær var léttur og kátur á æfingu með Manchester United í vikunni.
Ole Gunnar Solskjær var léttur og kátur á æfingu með Manchester United í vikunni. Getty/Matthew Peters

Ole Gunnar Solskjær, knattspyrnustjóri Manchester United, hefur varað stuðningsmenn félagsins við því að búast við einhverju eyðslufylleri í nýja leikmenn í sumar.

Manchester City er búið að stinga af á toppi ensku úrvalsdeildarinnar og mun vinna sinn þriðja Englandsmeistaratitil á fjórum árum. Nágrannarnir í City væru þá búnir að vinna fjóra titla síðan að United varð síðast meistari vorið 2013.

Manchester United er líklegt til að taka annað sætið en er engu að síður langt á eftir City. Það búast því margir við því að United kaupi stjörnuleikmenn í sumar til að reyna að brúa bilið.

Solskjær varar hins vegar stuðningsmenn félagsins við slíkum væntingum. ESPN segir frá.

„Heimsfaraldurinn hefur haft áhrif á alla í fótboltanum. Það eru allir að missa af innkomu og þetta gæti haft áhrif á okkur líka,“ sagði Ole Gunnar Solskjær.

„Við verðum að vera raunsæ og sýna ábyrgð í því hvernig við högum okkur, bæði inn á vellinum sem og á markaðnum. Það er verið að laga til á æfingasvæðinu og á leikvanginum og við verðum að horfa á alla heildarmyndina,“ sagði Solskjær.

„Hvar getum við eytt peningnum? Og hvað er mikið til? Þetta er bara raunveruleikinn í dag. Hann hefur breyst,“ sagði Solskjær.

„Ég held að það verði bara minna og minna um leikmannakaup í fótboltaheiminum vegna allra þessara breytinga,“ sagði Solskjær. Hann býst jafnvel við því að treysta enn meira á unga leikmenn úr akademíunni á næsta tímabili.

Erlendir fjölmiðlar telja sig samt hafa heimildir fyrir því að Solskjær fái pening til að kaupa nýja leikmenn í sumar. Ársskýrsla félagsins verður opinberuð á morgun og þá kemur betur í ljós hvaða áhrif faraldurinn hefur í raun haft á rekstur Manchester United.

„Við erum alltaf að leita leiða til að gera hópinn okkar betri, auðvitað. Við erum alltaf að leita að betri leikmönnum,“ sagði Ole Gunnar Solskjær.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.