Þetta þýðir að skjálftinn í kvöld er sá sterkasti í dag og sá þriðji öflugasti frá því hrinan hófst í fyrradag. Tveir þeir stærstu urðu báðir á ellefta tímanum að morgni miðvikudags, 24. febrúar, 5,7 stig klukkan 10:05 og 5,0 stig klukkan 10:30.
Samkvæmt skjálftavef Veðurstofunnar hafa ellefu skjálftar í dag mælst yfir fjögur stig. Sá næststærsti varð klukkan 20.08 í kvöld upp á 4,6 stig. Upptök allra stóru skjálftanna eru á svæðinu milli Fagradalsfjalls og Keilis.
Stóri skjálftinn í kvöld virðist hafa fundist vel um sunnan- og vestanvert landið. Þannig fann fólk í Borgarfirði mjög sterkt fyrir honum. Einnig hefur fólk á Snæfellsnesi, í Búðardal, á Hvolsvelli og í Vestmannaeyjum skýrt frá því að það hafi fundið fyrir honum.
Sennilega fundu þó engir sterkar fyrir honum en Grindvíkingar. Hér má sjá viðbrögð þeirra eftir öflugustu skjálftana á miðvikudag: