Líkt og fréttastofa hefur greint frá í vikunni komst embætti landlæknis nýverið að þeirri niðurstöðu að læknir við Heilbrigðisstofnun Suðurnesja hefði gert röð alvarlegra mistaka í störfum sínum sem talin eru hafa leitt til andláts að minnsta kosti eins sjúklings í október 2019. Maðurinn er meðal annars grunaður um að hafa veitt fólki lífslokameðferð án þess að þörf væri á slíkri meðferð. Samkvæmt upplýsingum frá lögreglu hefur kæra verið lögð fram á hendur lækninum og rannsókn hafin.
Læknirinn lét af störfum hjá HSS eftir að landlæknir hóf athugun á störfum hans í nóvember 2019. Hann er ekki lengur með starfsleyfi sem læknir, sé starfsleyfaskrá landlæknis skoðuð. Maðurinn starfar hins vegar á lyflækningadeild og krabbameinsdeild Landspítala í dag. Starfsfólk deildarinnar var í gær upplýst um að hann yrði þar við störf næstu mánuði, sem sé hluti af endurmenntun hans. Hann muni starfa án lækningaleyfis en ekki bera neina læknisfræðilega ábyrgð. Þá segir í skilaboðum til starfsfólks að aldrei hafi borið skugga á störf mannsins fyrr en nú.
Farið fram á verulegar úrbætur
Embætti landlæknis gaf árið 2017 út skýrslu um HSS þar sem fram kom að gera mætti betur í öllum fjórum þáttum starfseminnar sem tilgreindir voru í skýrslunni. Þannig þótti stefnumörkun og húsnæði ófullnægjandi og umbóta þörf þegar kom að stjórnun, vinnubrögðum og gæðastarfi. Í eftirfylgni embættisins árið 2019 kom fram að stofnunin þyki á réttri leið en jafnframt tilgreint að breytingaferli taki langan tíma. Önnur úttekt átti að vera gerð á síðasta ári en hún frestaðist vegna heimsfaraldurs.
Landspítalinn vildi ekki veita viðtal þegar eftir því var leitað. Heilbrigðisstofnun Suðurnesja hefur heldur ekki viljað tjá sig en fréttastofa greindi frá því í gær að athugasemdir hafi borist á hendur fleiri læknum hjá stofnuninni.