Innlent

Tveir lentu í snjóflóði undir hlíðum Skessuhorns

Elín Margrét Böðvarsdóttir og Sylvía Hall skrifa
Björgunarsveitir hafa verið kallaðar út.
Björgunarsveitir hafa verið kallaðar út. Vísir/Vilhelm

Tveir menn lentu í snjóflóði sem féll í hlíðunum undir Skessuhorni í Borgarfirði í dag. Björgunarsveitir í Borgarfirði voru kallaðar út rétt fyrir klukkan fjögur í dag en mönnunum tókst að koma sér út úr flóðinu af sjálfsdáðum og hringdu á eftir aðstoð.

Fyrstu hópar björgunarsveita eru nú þegar þetta er skrifað í þann mund að komast á vettvang en þrátt fyrir að mennirnir sem lentu í flóðinu hafi ekki slasast eru aðstæður í fjallinu með þeim hætti að þeir komast ekki niður af sjálfsdáðum. 

„Það voru tveir menn sem að lentu í flóðinu en virðast hafa komist úr því sjálfir og eru ekki slasaðir. En þeir lentu á þannig stað að það þarf hjálp við að koma þeim niður. Fyrstu björgunarsveitarmenn eru að nálgast vettvang núna,“ segir Davíð Már Bjarnason, upplýsingafulltrúi Slysavarnafélagsins Landsbjargar, í samtali við Vísi. 

Fleiri eru á leiðinni á vettvang, ýmist fótgangandi, á jeppum eða sexhjólum.

„Það er verið að meta aðstæður, hvað þarf af búnaði til þess að koma þeim niður en þeir alla veganna tókst sjálfum að hringja á hjálp og voru komnir þá úr flóðinu,“ segir Davíð.

Uppfært 17:46: 

Björgunarsveitarfólk kom að mönnunum upp úr klukkan 17 á sexhjóli. Mennirnir fundu fyrir einhverjum eymslum sem hlúð var að á vettvangi, en þeir voru fluttir á sexhjólunum til móts við bíl sem flutti þá niður á veg. 



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×