Lífið

„Hann er raunverulegur snillingur, trúðu mér“

Stefán Árni Pálsson skrifar
Daníel Ágúst hefur verið einn ástsælasti söngvari þjóðarinnar í um þrjátíu ár. 
Daníel Ágúst hefur verið einn ástsælasti söngvari þjóðarinnar í um þrjátíu ár. 

Síðasti gesturinn í þáttunum Tónlistarmennirnir okkar var sýndur í gærkvöldi á Stöð 2. Þar ræddi Auðunn Blöndal við Daníel Ágúst Haraldsson um feril hans í músíkinni en hann hefur bæði verið í Ný Dönsk í yfir 30 ár og lengi einnig komið fram með sveitinni GusGus.

Auðunn spurði Daníel hvort það hefði verið mikið djamm og sukk á hans upphafsárum með Ný Dönsk og þá var söngvarinn ekki lengi að svara.

„Nei, þetta var bara rosalega mikil ástríða fyrir því sem við vorum að gera. Þetta var bara okkar leikvangur og við gerðum bara það sem okkur sýndist. Aldrei neitt svona vímuefnum blandið,“ segir Daníel og tekur það fram að þetta hafi alltaf verið ástand hljómsveitameðlima í vinnunni sjálfri.

„Auðvitað vorum við að prófa ýmislegt á okkar ungdómsárum en það var ekkert sem kom músíkinni við.“

Daníel talar einstaklega fallega um Björn Jörund sem er einnig söngvari Ný Dönsk ásamt Daníel.

„Bjössi var rosalega afkastamikill í byrjun og þá vorum við bara að spila og syngja lögin hans. Þetta hefur kannski jafnast aðeins út í gegnum árin. Bjössi er búinn að semja svo marga gimsteina. Hann er raunverulegur snillingur, trúðu mér.“

Hér að neðan má sjá atriði í þættinum sem var í gærkvöldi.

Klippa: Hann er raunverulegur snillingur, trúðu mér





Fleiri fréttir

Sjá meira


×