Lífið

Hafði ekki hugmynd um að Zoom gæti gert sig að ketti og svo internetstjörnu

Samúel Karl Ólason skrifar
Köötur

Lögmaðurinn Rod Ponton hafði ekki hugmynd um að Zoom gæti breytt honum, fyrst í kött og svo í internetstjörnu en er að reyna að gera sitt besta til að takast á við frægðina.

Myndband af honum ræða við annan lögmann og dómara á Zoom á dögunum fór eins og eldur í sinu um netið í gærkvöldi og í dag. Á því var Ponton með kveikt á svokölluðum filter þar sem andliti hans var breytt í andlit kattar.

Sjá einnig: „Ég er ekki köttur“

Þar ítrekaði Ponton að hann væri svo sannarlega ekki köttur, þó hann liti út fyrir það, og sagði aðstoðarkonu sína vera að reyna að slökkva á filternum.

Poton var að nota tölvu aðstoðarkonu sinnar fyrir fundinn. Hann sagði að í upphafi hafi allt virst í lagi en um leið og dómarinn tók til máls hafi andlit hans breyst í kött.

Dómarinn, Roy Ferguson, deildi myndbandinu á samfélagsmiðlum og ítrekaði fyrir fólki að hafa slökkt á filterum fyrir fjarréttarhöld.

Ponton sagði að dómarinn hefði haft gaman af þessum mistökum og að allir sem hafi átt í vandræðum með tölvur eða Zoom ættu að kannast við mistök sem þessi.

„Ég vissi ekki að Zoom gæti breytt mér í kött. Ég vissi ekki að kattaZoom gæti gert mig að netstjörnu, en þetta gerðist allt á nokkrum klukkustundum,“ sagði Ponton í samtali við blaðamann BBC.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×