Lífið

Nánast ónýtt hús til sölu í Kópavogi og mögulegir kaupendur þurfa klæðast hlífðarfatnaði við skoðun

Stefán Árni Pálsson skrifar
Í raun hefur ekkert verið gert fyrir húsið síðan 1964. 
Í raun hefur ekkert verið gert fyrir húsið síðan 1964. 

Heldur sérstök eign er til sölu við Skólagerði 47 í Kópavogi en um er að ræða 204 fermetra parhús sem byggt var árið 1964.

Líklega hefur lítið sem ekkert verið gert fyrir eignina frá byggingu hússins en ásett verð er 38,5 milljónir þrátt fyrir að fasteignamatið sé 51,3 milljónir.

Húsið er 204 fermetrar og eru þar fimm svefnherbergi og þrjú baðherbergi. Einnig eru tvennar svalir í húsinu.

Í fasteignaauglýsingu eignarinnar segir: „Áhugasömum er bent á að bóka skoðun á eigninni og gera það með fagaðilum í viðeigandi klæðnaði af heilsufarsástæðum.“

Þar kemur einnig fram að seljandinn sé dánarbú og því getur seljandi ekki uppfyllt upplýsingaskyldu sína að fullu. Nauðsynlegt er að endurnýja eignina að fullu að utan og í raun að innan líka. Töluverð mygla og rakaskemmdir eru í húsinu.

Mbl.is greinir frá því að húsið sé dánarbú Carls Johans Eiríkssonar sem var ein besta riffilskytta landsins á sínum tíma en hann lést síðastliðið sumar 91 árs að aldri. Hann tók til að mynda þátt á Ólympíuleikunum í Barcelona árið 1992 í riffilskotfimi, nánar tiltekið í greininni 60 skot liggjandi.

Fréttablaðið hefur rætt við nágrannanna í Skólagerði 49 og segir Andrej Holbicka þar að fjölskyldan hafi í raun fest óaðvitandi í niðurnýddu parhúsi.

„Við höfum rætt þetta við lög­fræðinga og erum mjög hrædd um að þetta muni lenda á okkur,“ segir Andrej í samtali við Fréttablaðið.

Hér að neðan má sjá myndir af eigninni.

Í raun þarf að taka allt í gegn í eigninni.
Nágrannarnir vissu ekki af ástandi hússins.
Möguleikarnir eru samt sem áður til staðar. 





Fleiri fréttir

Sjá meira


×