Sport

Fyrsta konan til að dæma í Super Bowl

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Sarah Thomas er að klára sitt sjötta tímabil í NFL-deildinni.
Sarah Thomas er að klára sitt sjötta tímabil í NFL-deildinni. Getty/Wesley Hitt

Super Bowl leikurinn í ár er þegar orðinn sögulegur þrátt fyrir að við vitum ekki enn hvaða lið muni mætast á Raymond James leikvanginum í Tampa í febrúar.

NFL-deildin gaf út sögulega tilkynningu í gær þegar hún staðfesti hverjir munu dæma Super Bowl leikinn sem fer fram á Flórída 2. febrúar næstkomandi.

Einn af þessum dómurum verður Sarah Thomas en hún er um leið fyrsta konan í sögunni til að dæma í Super Bowl.

Aðaldómari leiksins verður Carl Cheffers en Sarah er í hópi þeirra sem munu aðstoða hann við dómgæsluna.

Troy Vincent hjá NFL deildinni talaði um að Sarah Thomas muni enn á ný skrifa sögu NFL-deildarinnar.

Sarah Thomas er 47 ára gömul en fyrir fimm árum varð hún fyrsta konan til að dæma leik í NFL-deildinni. Hún hafði áður skrifað söguna í háskólafótboltanum sem og með að dæma enn af úrslitaleikjum hans.

Þetta er því hennar sjötta tímabil í NFL-deildinni og hún endar það með að taka þetta stóra og sögulega skref.

Áður en Sarah Thomas fékk tækifærið í NFL-deildinni og braut þennan kynjamúr dómara þá hafði hún verið að dæma í æfingabúðum hjá bæði New Orleans Saints og Indianapolis Colts. Hún dæmdi líka leik Saints og Oakland Raiders á undirbúningstímabilinu 2013.

Sarah fékk upphaflega áhuga á dómgæslunni þegar hún fór með eldri bróður sínum á dómararáðstefnu árið 1996.

Carl Cheffers hefur dæmt í NFL-deildinni í 21 tímabil en þetta verður hans annar Super Bowl leikur sem aðaldómari. Cheffers dæmdi líka leikinn þegar New England Patriots vann 34-28 sigur á Atlanta Falcons árið 2017.

Þar fagnaði Tom Brady sigri og hann gæti líka mætt í Super Bowl í ár. Brady og félagar í Tampa Bay Buccaneers eru eitt af fjórum liðum sem eru eftir í keppninni.

Um næstu helgi fara fram úrslitin í deildunum þar sem Tampa Bay Buccaneers heimsækir Green Bay Packers á meðan að meistararnir í Kansas City Chiefs taka á móti Buffalo Bills.


NFL er á Stöð 2 Sport en upplýsingar um útsendingar má finna hér. NFL er hluti af Stöð 2 Sport erlent sem kostar 3.990 krónur á mánuði. Beinar útsendingar frá öllum leikjum eru á NFL Game Pass sem hægt er að kaupa sem viðbót við Sportpakkann á 2.000 krónur á mánuði.

NFLFleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.