Enski boltinn

Clattenburg: Hann flautaði of snemma til hálfleiks í leik Liverpool og United

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Sadio Mane var sloppinn einn í gegn eftir frábæra sendingu Thiago þegar dómarinn flautaði til hálfleiks.
Sadio Mane var sloppinn einn í gegn eftir frábæra sendingu Thiago þegar dómarinn flautaði til hálfleiks. Getty/Andrew Powell/

Umdeildasta flautið í stórleik Liverpool og Manchester United var eflaust þegar Paul Tierney flautaði til hálfleiks þegar framherji Liverpool var að sleppa í gegnum vörn United.

Liverpool hefur ekki gengið vel að skapa sér færi að undanförnu og því var það svekkjandi fyrir bæði leikmenn og stuðningsmenn liðsins þegar algjört dauðafæri var tekið af Sadio Mane í markalausa jafnteflinu á móti Manchester United á Anfield um helgina.

Mark Clattenburg, fyrrum afburðardómari í ensku úrvalsdeildinni og hjá FIFA, hefur nú gefið út sinn dóm á ákvörðun fyrrum kollega síns.

Clattenburg tók atvikið fyrir í dómarapistli sínum í Daily Mail. Hann viðurkennir þar að dómarinn hafi flautað of snemma til hálfleiks í leik Liverpool og United.

Paul Tierney bætti að minnsta kosti einni mínútu við fyrri hálfleikinn en flautaði af þegar 45:54 voru á klukkunni. Þá hafði Thiago átt frábæra sendingu inn fyrir á Sadio Mane sem var sloppinn í gegnum vörn Manchester United.

„Hann vildi enda leikinn þegar boltinn var á hlutlausum stað eins og vaninn er hjá dómurum,“ byrjaði Mark Clattenburg en hélt svo áfram:

„Vandamálið var það að á sekúndubroti hafði Liverpool liðið spilað boltanum inn fyrir og Sadio Mane var sloppinn i gegn. Tierney hefði átt að bíða þar til öll uppbótarmínútan var liðin,“ skrifaði Clattenburg.

„Það hjálpaði honum að Mane og varnarmaðurinn Victor Lindelof hættu þá að spila þannig að við vitum ekki hvað hefði gerst. Ég vil samt ekki gagnrýna Tierney fyrir þetta atvik. Hann átti mjög góðan leik. Það er bara synd að það var ekki meiri ákefð í leiknum,“ skrifaði Clattenburg.

Jordan Henderson, fyrirliði Liverpool, gagnrýndi flautið eftir leikinn og sagði að leikmenn liðsins hafi ekki verið ánægðir.

„Eins og þú getur ímyndað þér þá vorum við ekki sáttir við þetta,“ sagði Jordan Henderson.

„Furðulegt, mjög furðulegt. Hann var sloppinn í gegn ef hann hefði ekki flautað. Það var nægur tími eftir af leiknum fyrir okkur til að skora mark en okkur skorti gæði á síðasta þriðjungnum,“ sagði Henderson.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×