Innlent

Katrín telur stjórnarflokkana hafa unnið vel úr Ásmundarsalarmálinu

Sunna Sæmundsdóttir skrifar
Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra og Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra.
Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra og Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra. vísir/Vilhelm

Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra, segist hafa haft áhyggjur af því að Ásmundarsalarmálið svokallaða myndi hafa áhrif á traust á milli stjórnarflokkanna. Hún telur þó að vel hafi verið unnið úr því.

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, þingmaður Viðreisnar, spurði í óundirbúnum fyrirspurnartíma á Alþingi hvort Katrín hefði endurheimt fullt traust til Sjálfstæðisflokksins.

Þar vísaði hún til samkvæmis í Ásmundarsal á Þorláksmessu sem lögreglan á höfuðborgarsvæðinu er með til rannsóknar vegna meintra sóttvarnarbrota. Líkt og fram hefur komið var Bjarni Benediktsson, á meðal viðstaddra. Þorgerður vísaði til fyrri orða Katrínar um málið, þar sem hún sagði það geta skaðað traust á milli flokkanna.

Þorgerður sagði mörg umdeild verkefni framundan. „Sem krefjast að vissu leyti samheldni, samvinnu, upplýsinga og trausts, ekki síst þegar kemur að trausti á milli stjórnarflokka.“ Nefndi hún þar meðal annars sölu á hlut í Íslandsbanka, sóttvarnarlög, frumvarp um stofnun miðhálendisþjóðgarðs, sameiningu sveitarfélaga og breytingar á stjórnarskrá.

Katrín sagði að málið hefði getað haft áhrif á stjórnarsamstarfið. „Því að þetta eru viðkvæmir tímar sem við lifum á, viðkvæm staða í samfélaginu og miklar kröfur sem við erum öll að leggja hvert á annað í tengslum við sóttvarnarráðstafanir.“

Samstarf flokkanna hafi gengið vel á þessu kjörtímabili og sagðist Katrín hafa nálgast málið sem verkefni sem hægt væri að vinna sameiginlega.

„Hæstvirtur ráðherra baðst afsökunar á þessu atviki og gerði það strax og beið ekki með það. Og útskýrði þær aðstæður. Og við höfum að sjálfsögðu rætt það síðan,“ sagði Katrín.

Hún sagðist hafa haft áhyggjur af því að málið myndi skaða traust á milli flokkanna. „En ég tel að við höfum unnið vel úr því máli,“ sagði Katrín.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×