Innlent

Í gæsluvarðhald eftir að hafa verið dæmdur í fjórtán ára fangelsi

Samúel Karl Ólason skrifar
Maðurinn var ákærður og dæmdur fyrir manndráp með því að hafa þrengt að hálsi eiginkonu sinnar með þeim afleiðingum að hún lést af völdum köfnunar.
Maðurinn var ákærður og dæmdur fyrir manndráp með því að hafa þrengt að hálsi eiginkonu sinnar með þeim afleiðingum að hún lést af völdum köfnunar. Vísir/Vilhelm

Maðurinn sem var dæmdur í fjórtán ára fangelsi í dag fyrir að bana eiginkonu sinni í Sandgerði, hefur verið úrskurðaður í fimm mánaða gæsluvarðhald. Hann hefur verið frjáls ferða sinna frá því í október þegar Landsréttur felldi úr gildi gæsluvarðhald hans. Þá hafði hann verið í gæsluvarðhaldi frá apríl.

Þetta kemur fram á vef Ríkisútvarpsins.

Eins og áður segir var maðurinn sakfelldur í dag þegar dómur var kveðinn upp í Héraðsdómi Reykjaness.

Maðurinn var ákærður og dæmdur fyrir manndráp með því að hafa þrengt að hálsi eiginkonu sinnar með þeim afleiðingum að hún lést af völdum köfnunar. Athygli vakti að það var ekki fyrr en nokkrum dögum eftir andlát konunnar að maðurinn var handtekinn. Fram að þeim tíma hafði lögreglu ekki grunað að um saknæman dauðdaga væri að ræða en krufning leiddi annað í ljós.

Manninum var sleppt úr gæsluvarðhaldi í október eftir að Landsréttardómarar komust að þeirri niðurstöðu að í ljósi nýrra gagna væru skilyrði fyrir áframhaldandi gæsluvarðhaldi ekki fyrir hendi.

Saksóknari hafði krafist áframhaldandi varðhalds og vísað til þess að réttarkrufning hefði leitt í ljós að banamein konunnar hefði verið kyrking. Ekkert lægi fyrir um að einhver annar gæti átt hlut að máli. Héraðsdómur féllst á áframhaldandi varðhald.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×