Innlent

Manni hótað með exi

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Ráðist var að ungum manni í Kópavogi um áttaleytið í gærkvöld, honum hótað með exi og rændur. Árásarmannanna er nú leitað, eftir því sem fram kemur í samantekt lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu.

Fleiri ofbeldisbrot voru framin í borginni í nótt og í gærkvöld. Um hálfáttaleytið í gærkvöld kom maður á slysadeild tilkynnti um líkamsárás sem hann varð fyrir um það bil tveimur klukkustundum áður. Talið vitað hverjir eru árásaraðilar og er málið í rannsókn.

Um fimmleytið í gær var tilkynnt um mann með hníf á lofti sem var að reyna inngöngu í íbúð við Skúlagötu. Maðurinn sem var mjög ölvaður var handtekinn og vistaður í fangageymslu.

Þá var maður handtekinn við veitingahús á Laugaveginum um hálfeittleytið í nótt. Hann er grunaður um að hafa slegið mann með flösku á veitingastaðnum og verið að munda þar hníf. Hann var í annarlegu ástandi og hafði töluvert af fíkniefnum á sér. Maðurinn var handtekinn og vistaður í fangageymslu þar til hægt verður að ræða við hann.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×