Erlent

Kveikt á ólympíueldinum þrátt fyrir mótmæli

Mótmælendur höfðu málað sig með rauðri málningu.
Mótmælendur höfðu málað sig með rauðri málningu. MYND/AFP

Kveikt var á ólympíueldinum við hátíðlega athöfn í Grikklandi í morgun þrátt fyrir truflun mótmælenda. Tveir aðgerðarsinnar sem eru á móti yfirráðum Kína í Tíbet brutu sér leið í gegnum þúsund manna varðhring lögreglu í Ólympíu og reyndu að setja upp fána þegar sendifulltrúi Kínverja talaði. Aðgerðarsinnar höfðu boðað mótmæli vegna ástandsins í Tíbet.

Fáninn sem mótmælendurnir reyndu að setja upp þegar Liu Qi formaður framkvæmdanefndar ólympíuleikanna í Peking talaði, var svartur með handjárnum í stað ólympíuhringjanna. Um tíu mótmælendur komust inn á svæðið, sumir náðu að hlaupa á brott en aðrir voru handteknir af lögreglu.

Bein útsending var frá athöfninni en sjónvarpsvélum var beint frá mótmælendum og Liu Qi á meðan mótmælin stóðu sem hæst.

Hlaupið verður með ólympíukyndilinn um 20 lönd á leið hans til Peking. Farið verður með hann á topp Everest fjalls og í gegnum Tíbet áður en hann kemur til höfuðborgar Kína 8. ágúst.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×