Innlent

Spá verðhruni

Fasteignaverð á höfuðborgarsvæðinu á eftir að hrynja ef spár sérfræðinga Landsbankans ganga eftir. Sömu spár voru notaðar til að réttlæta allt að 75 prósent afslátt á fasteignalánum þegar þau voru færð úr gamla bankanum í þann nýja.

Þegar Nýi Landsbankinn tók yfir fasteignalán gamla bankans voru stuðst við nokkrar forsendur við verðmatið á lánasafninu. Ein helsta forsendan, samkvæmt heimildum fréttastofu voru spár bankans um fasteignaverð á næstum árum. Samkvæmt þessum spám fer fasteignaverð niður í 150 krónur á fermetrann en fermetraverðið er nú um 220 þúsund krónur að meðaltali. Markaðurinn á því enn töluvert í botninn ef marka spá Landsbankans. Hafa ber í huga að það var nýja bankanum í hag að spá svo lágu verði til þess að geta rökstutt afslátt á lánasafninu.

Tökum dæmi um hvernig þessi spá bankans auðveldaði honum að fá fasteignalán á afslætti. Hjón sem skulda bankanum eftir að hafa keypt 100 fermetra íbúð á 40 milljónir í góðærinu. Gamli bankinn lánaði 70% af kaupverðinu eða 28 milljónir sem urðu að 56 milljónum við hrun krónunnar

Nýi bankinn verðmetur fermetrann í íbúð hjónanna á 150 þúsund +/- 20 þúsund. Í þessu tilfelli 170 þúsund vegna þess að þetta er nýleg og vel staðsett eign. Bankinn tekur svo 80% af þessu sem gerir um 136 þúsund krónur á fermetrann.

Þar sem þetta er 100 fermetra íbúð kaupir Nýi Landsbankinn því lán hjónanna á 13,6 milljónir á meðan höfuðstóllinn stendur í 56 milljónum. 76% skuldarinnar er afskrifuð við færsluna úr gamla bankanum í þann nýja. Það eru 42 milljónir.

Það skal tekið fram að þetta er einfölduð mynd og Landsbankinn segir að fleiri forsendur hafi komið til þegar lánasafn gamla bankans var tekið yfir. Bankinn segist til að mynda hafa tekið safnið yfir á 33% afslætti.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×