Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra var á meðal þeirra sem hélt ávarp á hátíðinni og fór hún fögrum orðum um Bjarna Benediktsson fjármálaráðherra og formann flokksins. Hún hóf mál sitt á því að gefa í skyn að það væri kannski örlítið skrítið að formaður vinstri hreyfingarinnar, sem lengi vel hefur verið helsti andstæðingur Sjálfstæðisflokksins í stjórnmálum, væri þar kominn til þess að ávarpa flokksmenn
„En það er þannig í afmælum að þá sleppir maður öllu því sem miður hefur farið,“ sagði Katrín og uppskar mikinn hlátur viðstaddra.
Hún lagði mikla áherslu á það í ræðu sinni að það væri gott fólk í öllum stjórnmálaflokkum og það væri gott veganesti að hafa það hugfast í pólitík. Þá þakkaði hún ráðherrum Sjálfstæðisflokksins fyrir ánægjulegt samstarf á kjörtímabilinu og nefndi þar Bjarna Benediktsson sérstaklega sem hún sagði vera einn besta samstarfsmann sem hún hefur nokkurn tímann haft við mikinn fögnuð hátíðargesta.
Sigurður Ingi Jóhannsson, sveitastjórnar- og samgönguráðherra var einnig með ávarp sem og Heiða Björg Hilmisdóttir fyrir hönd Samfylkingarinnar.
Þá vakti það mikla kátínu meðal viðstaddra þegar Þórdís Kolbrún vakti máls á því að enginn frá Miðflokknum hefði mætt til þess að fagna afmælinu með Sjálfstæðismönnum, enda væru þeir uppteknir við önnur ræðuhöld.

